Margt hefur verið skrifað og skrafað um trúmál að undanförnu, bæði hér á Huga og á öðrum fjölmiðlum. Og þá aðallega þeir sem segja sig trúlausa. Og hafa þeir farið mikinn í því að afsanna tilvist Guðs, eða gert lítið úr honum. Sumir hafa látið í ljósi þá skoðun að Guð hafi verið skáldaður upp af mönnum, þegar þeim fór að leiðast guðleysið í tilvistinni.

Þeir hinir sömu, hafa talað um að vísindin hafi í raun, afsannað að Guð væri til, með túlkun sinni á sköpun heimsins. Því alheimurinn hafi orðið til, nánast fyrir tilviljun, þegar hann sprakk út einn daginn, fyrir um 14. milljörðum ára, og var þar að verki Miklihvellur (guð vísindamannanna).

Hinir sömu telja að þróunarkenning Darwins, hafi líka afsannað, að Guð hafi skapað manninn, dýrin, fuglana, fiskana og náttúruna á sex dögum. Því lífið hafi þróast í upphafi úr einfrumungi í fisk, sem síðar gekk á land og varð að apa, sem síðan kom niður úr trjánum og varð maður.

En staðreyndin er enn sú, að ekkert af þessum kenningum hafa verið sannaðar, með neinum svo haldbærum rökum, því að kenningarnar eru byggðar á getgátum. T.d. greinir vísindamönnum á um margt í þessum kenningum. Og hafa sumir snúið frá þróunarkenningunni á þeirri forsendu, að hún sé ekki haldbær. T.d. greinir líffræðingum á um það, hvernig eigi að skilgreina líf.

Og hvað með Miklahvell? Er það ekki barnaskapur að trúa því, að sköpun alheimsins hafi gjörst með þeim hætti, að hann hafi sprungið út fyrir tilviljun, og orðið úr þeim hvelli, að þessari fullkomnu sköpun, sem himingeimurinn er, með fullkomið lögmál sólkerfanna. Þar sem allt er í jafnvægi. Hnettir og tungl og fara eftir nákvæmum brautum, eins og jörðin, sem snýst í kringum sjálfa sig á sólarhring og kringum sólina á ein ári. Og talandi ú Miklahvell; hvað skilja sprengingar venjulega eftir sig annað en eyðileggingu? Og var það tilviljun, að í öllum þessum algeimi sem við þekkjum, skuli bara vera einn hnöttur sem líf er á. Er þá ekki ástæða til að skoða sköpunarsögu Biblíunnar?:
,,Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. Jörðin var þá auð og tóm, og myrkur grúfði yfir djúpinu… Guð sagði verði ljós! Og það varð ljós.´´

Fer þá ekki að verða ástæða til þess, að skoða alla þessa fullkomnu sköpun, í ljósi þess, að einn alvaldur Guð hafi skapað þetta allt saman, heldur en að vera að reyna að trúa einhverjum upphugsuðum kenningum manna?

En til þess þarf jú, trú. Það er lykillinn. Því án trúar er ógerningur að þekkja og upplifa Guð. Og tökum nú vel eftir. Í Biblíunni stendur: ,,Trúin er fullvissa um það, sem menn vona (eða halda) . Sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá. Því fyrir trú skiljum við, að heimarnir eru gjörðir með orði Guðs (Guð sagði) og að hið sýnilega hefur ekki orðið til af því, sem séð varð. (Eða ekki eins og menn hafa ætlað, t.d. með þróun, heldur með orði Guðs.) En án trúar sérð þú ekki Guð starfa. Því sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita. ´´

Ég veit um menn, sem voru fullir efasemda, en leituðu Guðs í einfaldri bæn: ,,Guð ef þú ert til, viltu þá sýna mér það.´´ Og þeir voru bænheyrðir.

Biblían segir; að Guð hinn eini sanni, sé ósýnilegur, því hann er andi. Hann einn hafi ódauðleika, hann búi í ljósi, sem enginn fær til komist, hann sem enginn maður leit, né litið getur. En hann sendi til jarðarinnar, staðgengil sinn, sem við getum séð, sinn eingetna son Jesú Krist. Og hann sagði: ,,Hafi þér og séð mig, þá hafið þér og séð Guð. Það er hið eilífa líf, að þekkja þig hinn eina sanna Guð og þann sem hann sendi Jesú Krist, því ég er vegurinn sannleikinn og lífið, og enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.´´

Vantrúin hefur fylgt manninum í gegnum aldirnar. Þar er lærisveinninn vantrúaði hann Tómas gott dæmi. Því þegar honum var sagt að Jesús væri upprisinn. Þá sagði hann: ,,Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína á síðu hans, mun ég alls ekki trúa..´´

Viku síðar kemur Jesús og birtist Tómasi og segir: ,,Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg á síðu mína, og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður. Tómas svarar þá, eftir að hafa þreifað á Jesú: ,,Drottinn minn og Guð minn!´´ (Hann sá þá guðdóm Jesú.) Jesús segir þá við hann, það sem allir er ekki trúa, ættu að íhuga: ,,Þú trúir af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð en trúa þó.´´

Í þessu felst hinn stóri leyndardómur trúarinnar. Að trúa án þess að hafa séð með eigin augum, heldur með hjartanu.

Biblían segir líka; að Jesús sé skapari himins og jarðar. Þar stendur um Jesú: ,,Hann var í upphafi hjá Guði. Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er. Í honum var líf… Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki.´´ Og svo er enn í dag.

Ég vona svo að þessi grein geti orðið sem lóð á vogarskálar trúarinnar. Að Guð sé til og hann birtist okkur í Jesú Kristi.