Jáhá!! VÁ! Hann er orðinn ÍSLENDINGUR, ekki lengur íslandsvinur, heldur ÍSLENDINGUR. Hann er einn af oss, og enginn svo mikið sem hóstaði þegar það var samþykkt á okkar virta Alþingi, elstu lýðræðisstofnun heims!

En þetta mál hefur verið hið furðulegasta frá upphafi, maður hefur verið svona með annað auga á þessum fréttum af honum, aðallega útaf því að Ísland tengist þessu. En atburðarrásin er nokkurnveginn eftirfarandi (eftir minni):

- Bobby kallinn stoppaður á flugvelli, þar sem hann var ásakaður um að vera með útrunnið vegabréf, þó það hafi í raun ekki verið útrunnið.

- Svo er sagt að stjórnvöld í BNA hafi gefið út tilskipun þess efnis að vegabréf hans sé útrunnið, en ekki gefið honum hans lögvarða rétt til að andmæla því.

- Bobby er varpað í hálfgert fangelsi fyrir ólöglega innflytjendur.

- Hann biður alla um að hjálpa sér, m.a. Sviss og Þýskaland. Enginn svarar hjálparbeiðninni.

- Sendir Davíð Oddssyni bréf þar sem hann biður um hjálp, og óskar eftir að fá vegabréf svo hann komist til Íslands. Við verðum við því.

- Japönsk stjórnvöld neita enn að sleppa honum, jafnvel þó hann sé kominn með vegabréfið. Bandarísk stjórnvöld hafa enn ekki ákveðið hvað skuli gera með hann, og hafa ekki óskað eftir að hann sé framseldur.

- Loks veitir Alþingi honum ríkissborgararétt, og vonandi fær hann frelsið sitt.


En mér finnst þetta furðulegt því japönsk stjórnvöld hafa enga ástæðu til að halda honum, hann er með vegabréf og engin framsalsbeiðni hefur borist frá neinu landi.
Álit mitt á Japan hefur tekið U-beygju niður á við eftir þetta, að geta ekki sleppt manngreyjinu, búinn að þjást í nærri því ár í þessu fangelsi.

Og hvað með bandarísk stjórnvöld? Þau virðast hafa sannað það enn og aftur að þau bera enga virðingu fyrir mannslífum og geta enga samúð sýnt með þeim sem þjást. Þau eru sek því að þau eru ástæðan fyrir því að japönsk stjórnvöld hafa haldið Bobby svona lengi, þau hafa hvatt þau til að halda honum þar til hægt væri að grafa upp ómerkilega hluti til að ákæra hann með.


Jahá, nú er bara eins gott að honum sé sleppt, því nú er hann ÍSLENDINGUR, og enginn abbast upp á okkur ÍSLENDINGA.

Enn og aftur hefur Ísland sýnt að enginn abbast upp á þá, hvorki Breska heimsveldið í þorkastríðinu né auðvaldið Bandaríkin og keisaradæmið Japan.


Nú er bara spurning um að halda upp á þegar Bobby Fischer loks lendir í Keflavík. Ég legg til að við tökum á móti honum með sveit prúðbúinna lögregluþjóna, rauðum dregli og svo auðvitað forseti vor sem tekur í höndinni á honum og segir “Welcome to Iceland!”, og ekki gleyma litlu stelpunni sem réttir honum blómavönd.

Svo skal bílalestin fara auðvitað beint niður á félagsmálastofnun þar sem redda þarf vasapening fyrir kallinn, þar næst tekur við skrúðganga og ávarp Bobby Fischer til íslendinga frá Austurvelli. Tíu á móti einum að hann eigi eftir að segja “Thank you Iceland!” og svo tárast.