Þetta er ritgerð gerð fyrir félagsfræði á MJÖG skömmum tíma, eftir Magnús Ben og Sturlu Óskarsson. Endilega segið álit ykkar sama hvert það er, skítkast er ekki afþakkað.




Fjölmiðlar eru allstaðar í kringum okkur og verða alltaf stærri og stærri hlutur af okkar daglega lífi. Sjónvarp, tölvuleikir, tónlist, kvikmyndir og rit af ýmsu tagi. Þetta hefur allt áhrif á okkur í auknum mæli. Foreldrar eiga það til að nota þetta sem einhverskonar uppeldistæki eða barnfóstrur og því eyða börn oft klukkustundunum saman fyrir framan stafræna afþreyingu svo sem tölvu- og sjónvarpsskjái. En er efni þessara „barnfóstra” við hæfi handa börnum? Er hagur barnanna efst í huga seljendum þessara miðla eða er það gróði? Eflaust er það gróðinn og því spyrjum hvort er söluvænna: uppyggilegt fræðsluefni fyrir yngri kynslóðina eða ofbeldisfullur tölvuleikur? Því er gríðarlega mikið efni í kvikmyndum og tölvuleikjum tengt ofbeldi á einhvern hátt og hvaða áhrif hefur allt þetta ofbeldi á hegðun barnanna? Þó nokkur umræða hefur verið í þjóðfélaginu um að þetta efni vægast sagt slæm áhrif á þau.

Í bókinni Uppeldishandbókin – Frá fæðingu til unglingsára er fjallað um að börn sem horfa á mikið ofbeldistengt sjónvarpsefni verði árásargjarnari en önnur börn. Þar er tekið dæmi um að áhorfendur Stundarinnar okkar séu mun ólíklegri til þess að beita leikfélaga sína ofbeldi heldur en þau börn sem horfa á Súpermann eða aðra svipaða þætti. Því börnin hafa ekki þroska til að skilja að allt í sjónvarpinu er uppgerningur en ekki alvara, og því eru þau líklegri til að apa eftir sjónvarpsatriðum. Í bókinnni er líka sagt að börn þjálfi upp ónæmi gegn ofbeldi og þjáningu náungans við áhorf á umtalað sjónvarpsefni. Þar er foreldrum ráðlagt að takmarka sjónvarpsáhorf barna sinna því börn sem fá ótakmarkaðan aðgang að sjónvarpinu horfa frekar á ýmsa óæskilega þætti sem innihalda kynferðisleg atriði, drykkjuskap, fíknefnaneyslu og ýmislegt annað sem er ekki við hæfi barna. Því er líklegra að hugsunarháttur barnanna til þessara efna mótist af sjónvarpsþáttum en ekki foreldrunum eins og æskilegt væri. Bókin ráðleggur foreldrum að hafa umsjón með áhorfsefni barna sinna og að vera góðar fyrirmyndir fyrir börnin.

Margrét Jónsdóttir og Guðrún Friðgeirsdóttir benda á í bók sinni Uppeldi: Kennslubók fyrir framhaldsskóla að í niðurstöðum rannsóknar kemur fram að: „Börnin vilja fylgjast með vinsælum þáttum því þangað sæki þau og vinir þeirra oft efnivið í leiki sína…” þetta kemur heim og saman við það sem sagt var frá í Uppeldishandbókinni að börn sem horfa á ofbeldi eru líklegri til að beita ofbeldi. Þar er einnig greint frá könnun sem gerð var í Fellaskóla í Breiðholti af níundabekkjarnemum og náði hún til aldurshópsins sex til fimmtán ára barna. Í þeirri könnun kemur fram hvað börn og unglingar horfa aðallega á niðurstöðurnar voru þessar:


Umtalsverður fjöldi barna og unglinga reynist horfa á ofbeldis- og
klámmyndir af því tagi sem vakið hafa ugg ábyrgra aðila í öllum
löndum. Rúmur fimmtungur allra svarendanna(22%) 6-15 ára,
telur klámmyndir meðal þess efnis sem þeir horfa helst á og helm-
ingur þeirra (49%) tilgreinir hryllingsmyndir (Þorbjörn Brodda-
son og Elías Héðinsson 1987, bls. 31)
(Guðrún Friðgeirsdóttir og Margrét Jónsdóttir, 1995.)


Í sömu könnun kemur fram að Íslenskir foreldrar fylgist minna með því sjónvarpsefni sem börn þeirra horfa á en foreldrar á hinum Norðurlöndunum. Íslenskir foreldrar leyfa börnunum sínum frekar að horfa á sjónvarpsefni ætlað fullorðnum og virðast hafa minni áhyggjur af áhrifum sjónvarpsefnis á þau.

Í bók þeirra kemur fram að áhorf á ofbeldismyndir valdi þreytu og álagi á skilningarvit og geti valdið hræðslu og geðshræringu meðal barna því að ofbeldið þar er skapað af fullorðnu fólki sen eru þolnari á ofbeldi en börn. Efni sem börn lesa t.d. í bók hefur ekki jafn mikil áhrif þar sem þá er það ímyndunarafl barnanna sjálfra sem fer með þau á vit ævintýranna. Í bók þeirra þeirra er einnig líkt og í Uppeldishandbókinni bent á það að börn sem sjá mikið ofbeldi missa samúðartilfinninguna fyrir þjáningum náungans.

Þær fjalla líka um að framsetning ofbeldis í kvikmyndum sé að breytast til hins verra, sjónarhorn áhorfandans sé í auknum mæli að færast frá þolanda ofbeldisins til geranda þess. Þetta hefur þau áhrif að samúð áhorfandans með fórnarlambinu fer minnkandi og að menn hafi áhyggjur af hvaða áhrif þessi þróun hafi, sérstaklega á börn. Árið 1985 var gerð bresk rannsókn á myndbandanotkun og náði hún til sexþúsund skólabarna. Þar kom í ljós mikill hluti barnanna horfði á efni sem bannað var börnum. Oft olli efnið svefntruflunum og/eða kvíðaviðbrögðum hjá þeim börnum sem horfðu á umrætt bannað efni. Fór það eftir aðstæðum barnanna hversu fljótlega þau náðu að jafna sig á einkennunum. Börn sem lifðu hamingjusamlega í faðmi fjölskyldunnar jöfnuðu sig hraðar en börn sem lifðu við verri aðstæður. Langtímaáhrif áhorfs á slíkt efni voru talin ófyrirsjáanleg. Sú kenning hefur verið á lofti að fólk geti svalað ofbeldisþorsta sínum með áhorfi á ofbeldiskvikmyndum. Sú kenning nefnist Úthreinsunarkenningin en sérfræðingar sem spurðir voru álits á kenningu þessari voru alfarið á móti kenningunni. Þeir sem stóðu að rannsókninni komu með þá kenningu að aukið ofbeldi í samfélögum geti hugsanlega verið rakið til aukins framboðs af ofbeldismyndum, en töldu sig þó þurfa ýtarlegri rannsóknir til að staðfesta þá kenningu.

Í grein Helga Gunnlaugssonar í tímaritinu Ný menntamál fjallar hann um fjölmiðla sem sökudólg ofbeldis í samfélaginu. Þar bendir hann á að markaðsrannsóknir í Bandaríkjunum hafi sýnt að hryllingsmyndir njóti mestrar hylli meðal unglinga á aldrinum ellefu til fjórtán ára og að hinn venjulegi unglingur vestanhafs eyði meiri tíma í sjónvarpsáhorf en við skólanám og hafi orðið vitni að yfir þrjátíu þúsund morðum á sjónvarpsskjá. Sem dæmi um áhrif ofbeldis í fjölmiðlum á hegðun fólks notar hann að fjögurtíu og þrjú dauðsföll í Bandaríkjunum séu rakin beint til atriðis í kvikmyndinni Deer Hunter þar sem aðalpersónurnar fara í rússneska rúllettu. Einnig nefnir hann tvö mál þar sem hópur barna veldur dauða annars barns við að apa eftir atriði úr hryllingsmyndum.

Þrátt fyrir þetta tekur hann fram að sumir eru á því máli að :


Ofbeldisefni er því í raun ekki orsök ofbeldisins, heldur er það notað
sem afsökun eftir að ofbeldisverkið er framið eða jafnvel notað
til að eyða sektarkennd.
(Helgi Gunnlaugsson, 1998.)


Það er margt í grein Helga sem styður þessa fullyrðingu. Sumir nefna að sjónvarpsefni sé mun ofbeldisfullara en raunveruleikinn og ef ofbeldisefni í fjölmiðlum hefði bein tengsl á hegðun í samfélaginu væri samfélagið mun ofbeldisfullara en raun ber vitni. Aðrir nefna að í kvikmyndum sé boðskapurinn oftast afbrotamönnum í óhag því þeir nást yfirleitt að lokum og því ættu kvikmyndirnar að hafa jákvæð áhrif á samfélagið frekar en slæm. Helgi segir líka frá því að rannsóknir sýna að ofbeldisfull börn sækja frekar í ofbeldistengdar kvikmyndir en önnur börn og er það því frekar árásargirnin sem veldur áhuga á ofbeldisefni heldur en að ofbeldisefnið valdi árásarirnina. Aðrar rannsóknir sýna að mikið framboð á ofbeldisefni kallar ekki endilega aukið ofbeldi í samfélagi og Bandaríkin og Kanada tekin sem dæmi í þessu samhengi. Þar er framboð á ofbeldisefni í fjölmiðlum mjög svipað en ofbeldi þó mun algengara í Bandaríkjunum og því varla efnið sem hefur bein áhrif á ofbeldishegðun íbúanna. Einnig er ofbeldi í mörgum þróunarlöndum mjög algengt en á meðan aðgangur að fjölmiðlum er af skornum skammti. Þá hljóta þá margir aðrir og stærri þættir að spila inní ofbeldishneigð en fjölmiðlar. Enfremur er nefnt að á Íslandi á árunum 1975-1999 hafi heimsóknum á slysadeild af fórnarlambum ofbeldisverka hafi ekki hlutfallslega fjölgað að neinu ráði miðað við fólksfjölda. Þrátt fyrir voru miklar breytingar á þessu tímabili meðal annars frjáls fjölmiðill og aukið framboð ofbeldisefnis og aukin sjónvarps- og myndbandstækja væðing. Ofbeldi hefur alltaf verið til í miklum mæli langt fyrir komu fjölmiðla og því er ósennilegt að ofbeldi myndi minnka til muna ef ofbeldi í fjölmiðlum myndi hverfa.

Vegna þess hve ungt fyrirbæri tölvuleikir eru eru ekki til ýkja margar rannsóknir á áhrifum þeirra á börn en í grein Guðbjargar Hildar Kolbeins í lesbók Morgunblaðsins greinir hún frá einni slíkri rannsókn. Hún sýnir að árásarhneigð ungmenna eykst með aukinni notkun ofbeldisfullra tölvuleikja. Áhrif leikjanna eru meiri því raunverulegri sem þeir eru. Fyrrverandi ofursti í bandaríska hernum, Dave Grossman, gekk svo langt að ásaka framleiðendur tölvuleikja um að:


kenna börnum og unglingum að drepa á nákvæmlega sama hátt
og bandaríski herinn þjálfar hermenn sína í að drepa óvininn.
Hann segir að tölvuleikir kenni börnum: a) að þykja ofbeldi vera
eðlilegur hluti af umhverfi sínu, b) að þykja skemmtilegt að sjá ofbeldi
og dauða, c) að skjóta sjálfkrafa á “mannverur” og d) að líta upp til þeirra
sem beita ofbeldi.
(Guðbjörg Hildur Kolbeins, 2003.)


Því bandaríski herinn notar einmitt samkvæmt greininni tölvuleik til þjálfunar á hermönnum. Guðbjörg nefnir einnig skaðsemi klámfengra leikja á börn og unglinga og segir spilun þessara leikja valda lauslæti og kæruleysis gagnvart getnaðarvörnum. Varar hún við að of mikilli spilun ungmenna á klámfengum tölvuleikjum geti valdið brengluðum hugmyndum um samskipti kynjanna. Hún tekur þó fram að vegna þess hve ungt fyrirbæri tölvuleikir eru hafa langtímaáhrif þeirra ekki verið könnuð til fulls.

Hér hafa komið fram ýmsar rannsóknir og vangaveltur um hversu mikil áhrif ofbeldi í fjölmiðlum hefur á börn og unglinga. Rök bæði með og á móti því að það auki ofbeldishneigð þeirra en aðeins tími og fleiri og ítarlegri rannsóknir munu leiða endanlega í ljós sannleikan í þessum efnum, sérstaklega í tengslum við tölvuleiki þar sem þeir eru nýir af nálinni. Ofbeldi mun aldrei hverfa úr fjölmiðlaheiminum því það hefur sést og sannast að ofbeldi selst eins og áður hefur komið fram og fyrirtæki hugsa aðeins um gróða í auhyggju hins vestræna samfélags. Því munu áhrif ofbeldisfullra tölvuleikja eflaust ekki dvína þar sem rannsóknir sýna að því raunverulegri sem tölvuleikir eru því meiri áhrif hafa þeir á hegðun fólks og tölvuleikir munu ávallt verða raunverulegri vegna tækniþróunnar. Börn munu því alltaf eiga erfiðara með að skilja á milli leiks og alvöru.





Heimildir:

Helgi Gunnlaugsson. 1998. „Ofbeldi og samfélag: Fjölmiðlar, hinn fullkomni sökudólgur”. Ný Menntamál, 16. árgangur, 3. tölublað, bls. 24-29.

Guðbjörg Hildur Kolbeins. 2003. „HVAÐA ÁHRIF HAFA TÖLVULEIKIR MEÐ KLÁMI OG OFBELDI Á BÖRN?”. Lesbók Morgunblaðsins, 5. apríl. http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=723563
(Sótt þann 09/03/2005)

Guðrún Friðgeirsdóttir og Margrét Jónsdóttir. 1995. Uppeldi: kennslubók fyrir framhaldsskóla. Mál & menning, Reykjavík.

Uppeldishandbókin, frá fæðingu til unglingsára. 2000. Helga Þórarinsdóttir þýddi. Vaka-Helgafell, Reykjavík