Nú eru allir einhvern veginn alltaf að tala um fordóma og það hvað við Íslendingar erum í raun og veru fordómafullir. Þetta er náttúrulega laukrétt en hvað ætlum við eiginlega að gera í stöðunni? Það birtast viðtöl við gott fólk í sjónvarpi,útvarpi og greinar,eins og þessi, í blöðum þar sem drepið er á því að við séum ekki alveg að sýna þessa íslensku sveitagestrisni, sem við ættum svo auðveldlega að geta gert á þessum tímum þar sem ráðamenn okkar eru búnir að telja okkur trú um að við eigum svo mikið af peningum að okkur beri skylda til þess að vera hamingjusöm og kurteis. En er bara nóg að segja í blöðunum og sjónvarpinu að við eigum að vera góð við Tælendinginn í næsta húsi og taka Grænlendinginn með okkur á pöbbinn. Ég get ekki betur séð en að þetta sé allt saman í nösunum á okkur. Þegar öllu er á botninn hvolft þá eru flest okkur yfirfull af fordómum og áhugaleysi gagnvart útlendingnum. Við höfum hreinlega ekki þolinmæði til þess að eyða okkar dýrmæta tíma í að hlusta á einhvern Pólverja vera hálftíma að segja okkur eitthvað á sinni ömurlegu íslensku sem við vorum búin að uppgötva þegar við vorum tólf ára. Lausninn liggur ekki í því að einhver samtök haldi fundi þar sem Íslenskir menntaskólakrakkar hittast og drekka kók og kvarta yfir óréttlætinu sem þau eru sjálf rétt um það bil að úskrifast út í til þess að taka þátt í. Flestir innflytjendurnir eru ekki í menntaskóla heldur í einhverjum leiðindajobbum úti á granda. Þeir fara heldur ekki á Prikið eða Ozio eftir vinnu og þenja út á sér belginn með óþarfa neyslu og tilgangslausu hjali um fyrirframákveðna pólitík. Nei þeir fara heim að spara og tala við hina innflytjendurna af því að það hefur enginn af þessum góðhjörtuðu menntaskólakrökkum þolinmæði, tíma eða áhuga á því að kynnast þeim. Vandamálið er einstaklingsbundið og kreftst þess af okkur að við séum heil í því sem við erum að segja. Hvernig er hægt að taka mark á manni sem lætur sér afar annt um útlendinginn en nennir þá ekkert sérstaklega að komast í persónulegt tæri við hann. Flest okkar geta talið það á fingrum annarrar handar hversu marga útlendinga við umgöngumst dagsdaglega á persónulegum nótum og þá er ég ekki að tala um það hvað við vorum nú vingjarnleg við dökku stúlkuna sem skúrar á spítalanum. Afhverju sér maður aldrei útlendinga á skemmtistöðum borgarinnar? Ætli það sé af því að þeim finnist svo leiðinlegt að skemmta sér og geti bara ekki hugsað sér það að fara út og drekka svolítið og fá síðan kannski að fara með einhverjum heim í dulítið ástarævintýri? Auðvitað ekki. Það bara nennir enginn að taka þá með sér. Ef eitthvað á að gerast í raun og veru þá verður einstaklingurinn sjálfur að mynda persónuleg tengsl við annan einstakling. Ég held þó að í menntaskólunum sé þetta örlítið skárra því þá fáum við staðfestingu á því að heilarnir séu að virka svipað. En í fiskvinnslunni og úti á vinnumarkaðinu held ég að það ríki svolítil andleg stéttaskipting. Ég er í eihverju skítajobbi að púla við hliðina á Lettanum og fer allt í einu að vorkenna honum yfir því hvað hann eigi ömurlegt líf að vera kominn alla leið upp til Íslands til þess að vinna eitthvert skítajobb og fer kannski að hugsa það hvort hann hljóti ekki að vera svolítið einfaldur. Þetta geri ég jafnvel þótt ég viti að ég hefði getað lært hvað sem er fyrir lítinn pening en er þó sjálfur kominn í skítajobb þar sem skiptir engu hvort ég tala íslensku eða bara alls ekki neitt. Ég gleymi að bjóða honum í kaffi heima. Ég segi kærustunni brandara þegar ég kem heim.“Veistu hvað Lettinn sagði í dag ha ha aha ha ha” og so on. Samtök af ýmsu tagi eru góð til ýmissia hluta,þó sérstaklega þegar afla þarf fjár af einhverju tagi. En í mannlegum samskiptum þá ríða þau ekki baggamuninn því það er það sem þetta gengur allt saman út á. Útlendingum á Íslandi vantar ekki peninga þeim vantar félagsskap og okkur vantar svo sannarlega þeirra félagsskap til þess að komast örlítið út úr hausnum á okkur og út úr rassgatinu á okkur ef því er að skipta. Ég er sjálfur einn af þessum sem á örfáa útlenda vini og ég eignaðist þá meira fyrir slysni heldur en af áhuga en batnandi mönnum fer best að lifa. Gerum eitthvað saman.