Rétt í þessu var mér bent á þessa frétt á vísi.is http://www.visir.is/?PageID=38&NewsID=28746.

Þarna segir meðal annars.
Í yfirlýsingu sem send var frá forsætisráðuneytinu í byrjun síðustu viku var greint frá því að á ríkisstjórnarfundi sem haldinn var þann 18. mars 2003 hafi Íraksmálið verið fyrst á dagskrá og að í kjölfar þess fundar hafi Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson ákveðið að styðja aðgerðir undir forystu Bandaríkjamanna og Breta um að afvopna Saddam Hussein og hafi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi verið tilkynnt um það.

Ríkisstjórnarfundir eru að jafnaði haldnir að morgni dags, oft klukkan tíu. Sjónvarpsstöðin CNN greindi hins vegar frá því nokkrum klukkutímum fyrir fund ríkisstjórnarinnar að Ísland væri á listanum yfir lönd sem styddu innrásina. Á vefsíðu CNN má sjá tímasetningu á því hvenær fréttin er sett inn og þar kemur klárlega fram að Ísland var komið á listann margfræga að minnsta kosti fimm tímum fyrir ríkisstjórnarfundinn. Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, greindi frá því á blaðamannafundi þann 17. mars að allan morguninn hefði hann rætt við vini og bandamenn Bandaríkjanna um Íraksstríðið og að hann ætti eftir að tala við fjölda annarra að blaðamannafundinum loknum. Aðfaranótt 18. mars var svo nafn Íslands komið á lista ásamt nafni 29 annarra landa.

Í stuttu máli laug hæstvirtur forsætisráðherra að þjóðinni þegar hann fullyrðir að þessi ákvörðun hafi verið tekin eftir ríkisstjórnarfund.

Nú er mér nóg boðið. Þetta er ekki lengur orð á móti orði. Þegar menn eru farnir að grípa til lyga til að reyna að halda þjóðinni góðri þá er ljóst að eitthvað er ekki allt með felldu varðandi það hvernig þessi ákvörðun var tekin. Það skiptir ekki lengur neinu máli hvort þessi ákvörðun var rétt eða röng eða hvort þeir höfðu lagalegan rétt til að taka hana. Það að ljúga að þjóðinni gerir maður einfaldlega ekki. Alveg sama hvað. Nú mættu einhverjir fara að sjá sóma sinn í að segja af sér!