Hvenær fer þjóð í stríð? Hver er skilgreiningin á stríði? Er það þegar stríðsyfirlýsing er undirskrifuð af þingi/þjóðhöfðingja, og send þeim sem á að fara í stríð við? Eða þegar fyrsta skotinu er hleypt af, eða fyrsti hermaðurinn stígur á land, fyrstu sprengjunni er varpað, fyrsti saklausi borgarinn fellur? Eða kannski hvert og eitt af þessum atriðum?

Og hvernig fer vopnlaus þjóð í stríð? Eina leiðin held ég er að skrifa undir stuðningsyfirlýsingu við annan hvorn aðilann. Og þar með ertu kominn í stríð. Því það eru bara tvær stöður í slíkum málum, annað hvort ertu hlutlaus, eða þú ert í stríði. Það vill svo til að í þessu tilfelli þá var annar aðilinn í svo vonlausri stöðu, að menn telja sig komast upp með að kalla þetta eitthvað annað en það raunverulega var, vegna þess að það var aldrei neinn möguleiki á að þetta stríð kæmi nálægt ströndum landsins eins og það sem endaði fyrir 60 árum.

Talandi um það stríð, hugleiðið aðeins hvað “listi yfir hina viljugu” hefði þýtt í því samhengi. Dettur einhverjum í hug að það hefði “bara verið listi” þá?

Þegar háttvirtur lagaprófessor Eiríkur Tómasson hugleiddi hversu löglegur þessi gjörningur okkar ágætu ráðherra var, þá hef ég ekki trú á að hann hafi verið að velta fyrir hvað það var sem þeir voru raunverulega að gera. Af einhverjum ástæðum hefur þessi hlið málsins ekki komist upp á yfirborðið í fjölmiðlaumræðunni, líklega vegna þess að menn óttast alvarleika málsins.

En, af hverju er þetta svona umdeilt mál? Ég vil segja að það sé vegna þess að 84% þjóðarinnar finnst að landið hafi lýst yfir stríði á hendur annarar þjóðar að sér forspurðum. Spurningin sem á að spyrja er ekki hvort utanríkis og forsetisráðherra hafi umboð til samskipta við önnur ríki, sem þeir óumdeilanlega hafa, heldur hvort þeir hafi umboð til að lýsa yfir stríði á hendur öðru ríki. Um það snýst málið.
-Gulli