Það heitir víst að bera í bakkafullan lækinn að skrifa grein um árangur okkar í Eurovision en það verður seint um mig sagt að ég kunni mér hóf svo ég skrifa þessa stuttu grein og vona að mér fyrirgefist.

Íslenska þjóðin virðist hafa fengið taugaáfall undir stigagjöfinni og einhvern veginn virtist engann hafa grunað þessi yrði raunin. En ef vel er skoðað verður strax ljóst að þetta var tilgangurinn og markmiðið með þessu framlagi okkar. Skoðum málið.

Forkeppni var haldin hér á landi. Forkeppni þar sem helsta viðmið dómnefndar virðist hafa verið að velja lélegustu lögin, með verstu flytjendunum og hryllilegustu textasmíðum. Síðan var símakosning og lélegasta lagið vann. Hversvegna er óskiljanlegt. Og þá kom fyrsta planið. Íslensk stjórnvöld, með útvarpsráð í fararbroddi, fékk nefnilega vægt taugaáfall árið 1999 þegar Selma var næstum búin að vinna keppnina. Sendu árið eftir út stolið lag með sjúskuðum flytjendum en allt kom fyrir ekki. Tólfta sætið og framhald í keppninni tryggt. Nú voru góð ráð dýr. Það er nefnilega mjög dýrt að taka þátt í keppninni og guð forði okkur frá því að halda keppnina. Útvarpsráð vildi frí frá þátttöku og ákvað að lagið skyldi flutt á Íslensku. Veskú eitt stykki lag sem setur okkur í sama flokk og tyrki, portúgali og flestar slavnesku þjóðirnar, þjóðir sem aldrei fá stig. En þjóðin varð brjáluð. Okkur finnst nefnilega gaman að Eurovision þó við viljum ekki viðurkenna það og við erum kappsöm og tökum aðeins þátt til að sigra. Útvarpsráð bakkaði og leyfði Einari Bárða og Mágnúsi Þór að semja eitt stykki enskan texta. Árangurinn varð hryllilegur svo ekki sé meira sagt. Og ekki vildi útvarpsráð splæsa í framburðarkennslu fyrir flytjendurna svo arrow var sungið avvó og narrow varð að sama skapi navvó. Hallærislegt.

En hallærislegri varð flutningurinn á sviðinu. Tveir hallærisgaurar stóðu á sviðinu og grettu sig í takt við lagið og við hliðina á þeim stóðu tvær stelpur og fettu sig eitthvað og kölluðu það dans. Árangurinn varð eins og lélegasta atriðið í söngkeppni framhaldsskólanna, eitthvað sem Menntaskólinn á Egilsstöðum hefði skammast sín fyrir að senda frá sér.

Lagið sjálft var líka svo sorglega ófrumlegt, söngurinn svo litlaus, flutningurinn svo afkáralegur og framburðurinn svo barnalegur að áhorfendur í Evrópu gleymdu laginu um leið og því lauk. Var það annars eitthvað skrýtið?

Annars var Eurovision-keppnin í gær einhver lélegasta slík sem sést hefur í áraraðir. Ljótt og ófrumlegt svið, vanmátta lýsing og umfram allt óvenjuléleg og óspennandi lög gerðu keppnina grútleiðinlega. Kynnarnir voru líka í einhverjum einkahúmors rímna stuði sem varð fyrst til þess að maður hlustaði til að heyra rímið, síðan pínlegt og að lokum svo fáránlegt að ósjálfrátt hætti maður að hlusta til að verða ekki vitni að þessu neyðarlega uppistandi sem aldrei virtist ljúka.

Það sem annars var verst við keppnina var ekki dönum að kenna. Það var ekki einu sinni þáttakendum að kenna. Það var RÚV að kenna. Þetta ríkisrekna apparat sem sendir út fyrir tilstuðlan nauðungargjalda sendi út auglýsingar yfir bæði skemmtiatriðin. Skemmtiatriði sem hugsanlega hefðu getað bjargað upplifuninni. Þessi ráðstöfun var RÚV til skammar og var ekki til að bæta ímynd þessarar illa liðnu stofnunar.

En þjóðin getur varpað öndinni léttar, við verðum ekki með næst og getum einbeitt okkur að því að halda með einhverri annarri þjóð næst og getur þá kannski valið þjóð hverrar framlag á skilið að vinna. Þessi þjóð í gær voru danir.