2005 var frábært ár að vissu marki. Íslendingar stauluðust út og kusu Óla, eða alla vega einhverjir. Dabbi missti vitið að maður hélt og kom með hin margfrægu fjölmiðlalög. Ég sjálfur fór niðrí Alþingishús og horfði á þegar hálfrarmilljón króna alþingsmennirnir okkar samþykktu frumvarpið. Hallgrímur Helga sat meira að segja hliðin á mér, en Illugi Jökuls, Kiddi Bigfoot og fleiri DV hausar voru á meðal áhorfenda. Út úr alþingi gekk ég svosem vonsvikinn, en það vissu allir í hvað stefndi. Þótt að 2-3 framsóknar og sjálfstæðismenn hefðu snúist gegn eigin flokki dugði það samt ekki til þess að fella frumvarpið. Það var búið að hamra svo oft á því af Stöð2 og hinum skæru norðurljósarstöðvunum að þessi lög væru svo óréttlát og svívirðileg að slíkt ætti ekki heima í frjálsu lýðræðisríki, að landið yrði ekki samt ef þau gengu í gildi enda væru ‘allir’ eða langflestir á móti því.

Allt stefndi þó í að frumvarpið yrði að lögum, og norðurljós yrðu að engu. Svo var þó ekki, því stuttu fyrir kosningar sagði Óli auðvitað nei. Á þeim tímapunkti gladdist ég yfir ákvörðun hans. Hann hafði alveg orð að mæla, það var of stór gjá milli þings og þjóðar. Það fannst Stöð2 líka, og Simma og Jóa. Þjóðaratkvæðagreiðsla sagði forsetinn, en lögin sögðu annað samkvæmt Dabba og lögfræðingum hans. Það var búið að fjalla svo mikið og lengi um fjölmiðlamálið að enginn vissi hvort sneri upp né niður, hvort Davíð væri á lífi eða Norðurljós á hausnum.

Málið féll í gleymsku og réttlætinu virtist einhvern veginn framfylgt, eða það hélt maður. Fjölmiðlar gátu alla vega starfað óáreittir í einhvern tíma og maður gat haldið áfram að horfa á endursýningar af Friends og ársgamla þætti af Neighbours daglega.

Eitthvað klæjaði mig í skinnið svo nú í janúar á nýju ári þegar þrjár útvarpsstöðvar, þar af tvær tileinkaðar rokki og róli, hverfa af sjónarsviðinu líkt og fingrum almættis væri smellt, nokkrum dögum eftir að eina einkarekna rokkstöðin leggur upp laupana. Það var skítalykt af málinu jafnvel þótt Gunnar Smári þvoði hendur sínar og starfsmanna sinna með yfirlýsingum um að rásirnar hefðu bara ekki verið að skila hagnaði. Þessar tvær fyrrnefndu rokkstöðvar sem að lagðar voru niður af norðurljósum höfðu á morgnana að geyma útvarpsþátt sem að tuttugu þúsund íslendingar lögðu eyra á hverjum morgni í bílum sínum á leið til vinnu, í strætó eða heima yfir morgunmatnum. Býsna dýrt að auglýsa.

Eitthvað rámaði mig í einhver lög sem að ég var svo ákaft á móti snemma sumars 2004. Ég mundi eftir Dabba en líka eftir Óla. Alþingishúsið og Austurvöllurinn á sólríkum og heiðskírum degi. Ég mundi eftir að lögin sem ég andmælti hefðu komið í veg fyrir að eina sem ég taldi áhlustanlegt í útvarpi, yrði hent í ruslið líkt og seðlunum sem að eigendur þess snýttu sér með á köldum vetrarmorgnum. Ég mundi eftir að lögin sem ég var svo rosalega á móti hefðu einnig komið í veg fyrir að jafnvel tugir fólks myndu missa vinnuna svo að slúðurritsjóri landsins myndi fá alla þá athygli og áheyrn sem hann óskaði.

Sá sem heldur að til séu viðskiptamenn og baugsgreifar með hugsjónir og samvisku, hefur herfilega rangt fyrir sér. Svoleiðis fólk mun aldrei líta dagsins ljós í samfélaginu eins og það er núna.