Nú á dögum á N-Írlandi geysa blóðug átök með meðfylgjandi hryðjuverkum og skipulögðum glæpum. Þessi átök hafa söguna á bak við sig og hafa staðið í 700 ár og síðustu 35 árin hefur ríkt sannkallað stríðsástand á N-Írlandi.

N-Írar skiptast í tvær stríðandi fylkingar. Annars vegar eru það kaþólikkar af írskum ættum, öðru nafni lýðveldissinnar, og hins vegar mótmælendur af skoskum og enskum ættum, öðru nafni sambandssinnar. Báðar fylkingar beita ofbeldisverkum til að berjast gegn því að deila völdum með hinum, þó aðallega breskættuðu mótmælendurnir.

Mótmælendur vilja vera áfram undir járnhæl Breta og miðað við aðgerðir virðast þeir vera algjörlega á móti öllum friðarviðræðum. Jafnvel IRA, hryðjuverkahreyfing kaþólikka, hefur oft verið til í að leggja niður vopn. Kaþólikkar vilja aftur á móti sameinast Írlandi þannig að í raun vilja fáir sjálfstæði fyrir N-Írland eitt og sér.

Bretar náðu öllu Írlandi á vald sitt á 14. öld. Þeir píndu og kúguðu írsku þjóðina svo öldum skipti. Það var svo árið 1921 sem Bretar slepptu takinu en héldu eftir 14.000 km2 skika á Norðausturströnd Írlands sem nú heitir N-Írland. Frá stofnun N-Írlands hafa búið annars vegar Írar og hins vegar Bretar. Fylkingarnar tvær hafa aldrei getað látið hvor aðra í friði. Írar hafa aldrei verið sáttir við Bretana eftir kúgunina og Bretar vildu áfram níðast á Írum. Af þessu má draga þá ályktun að ef Bretar hefðu ekki hrifsað Írland til sín, væru þessi blóðugu átök ekki í gangi í dag.

Bretar hafa aldrei haft stjórn á N-Írlandi og alltaf stjórnað því illa. Tökum dæmi: Árið 1968 mótmæltu kaþólikkar ástandinu en mótmælendurnir bresku kváðu það í kútinn með einkar ofbeldisfullum hætti. Annað dæmi: 30. jan. 1972 skutu breskir hermenn á friðsæla mótmælagöngu kaþólikka og drápu 13 en særðu 14.

Einnig virðast Bretar aldrei treysta heimastjórn N-Íra. Hvað eftir annað er hún leyst upp en það er einmitt þá sem ofbeldið hefst. Því ættu N-Írar að fá þau sjálfsögðu réttindi sem kallast sjálfstæði og eigin stjórn og þá ættu allir að róast umtalsvert. Kaþólikkum fjölgar líka hraðar af skiljanlegum ástæðum og í náinni framtíð á meirihluti N-Íra því eftir að krefjast sameiningar við Írska lýðveldið.