Þessi grein er tekin af minni eigin heimasíðu sem enginn skoðar hvort eð er þannig að ekki væna mig um ritstuld ef þið slysist þar inn.

Ég er að spá í að ausa aftur úr skálum reiði minnar, en í þetta skiptið er það vegna myndar sem ég sá í gær um Helga Hósearson pg baráttu hans fyrir því að fá að taka skírn sína til baka, ég hreinlega á ekki til orð og það sem sló mig var þegar hann sagði að hann hefði 13 ára gamall verið vélaður til að fermast og staðfesta þar sem skírn sína, ég fór því á althingi.is og fletti upp tilskipun alþingis um fermingar og ætla ég að birta fyrsta hluta hennar hérna óstyttan.

“1. Það skal vera aðalregla, að prestar megi eigi taka börn til fermingar, þau er fermast eiga, fyrr en þau eru orðin fullra 14 eða 15 ára, með því að börn, sem yngri eru, kunna sjaldan að meta rétt, eða hafa hugsun á að færa sér í nyt það er kennarar þeirra leiða þeim fyrir sjónir og brýna fyrir þeim, og skynja eigi, hve þýðingarmikill sáttmáli sá er, er þau í fermingunni endurnýja og staðfesta. Þó er þess að gæta um tímaákvörðun þessa, að börn, sem eiga að fara í langferðir, svo sem til Indlands eða Vesturheimseyja, má taka til fermingar, þó að hálft ár eða nokkuð meira skorti til þess að þau hafi náð greindum aldri, og eins er það, ef það ber við, að barn, sem eigi er orðið fullra 14 ára, verður hættulega sjúkt, og beiðist þess á sóttarsæng sinni, að mega njóta hins heilaga sakramentis, og hefir innilega þrá eftir því, þá skal það prestinum leyft vera, ef hann telur barnið vera vel upplýst, að veita því hluttöku í þessu sáluhjálparmeðali. En ef barninu batnar aftur, þá skal það þó hið fyrsta mæta fyrir söfnuðinum í kirkjunni og vera þar yfirheyrt opinberlega og fermt ásamt öðrum fermingarbörnum. Hvað þau börn áhrærir, sem eru í vist eða eiga að fara í vist eða læra handiðn einhverja, þá viljum Vér alvarlega banna húsbændum þeirra eða meisturum að draga nokkuð frá launum barnanna eða láta þau vera lengur að náminu en annars skyldi verið hafa, fyrir þá sök, að nokkur tími eyðist til uppfræðslu þeirra og undirbúnings undir fermingu. En þótt Vér viljum þannig allramildilegast setja þá reglu, að börn eigi ekki yfir höfuð að ferma fyrr en þau eru 14–15 ára gömul, þá viljum Vér þó eigi, að hlutaðeigendur skilji þetta svo, sem prestar með því séu skyldaðir til að taka börn til fermingar fyrir það, að þau eru svo gömul orðin, hvort sem þau hafa næga þekkingu til þess eður eigi; en það skal vera komið undir áliti hlutaðeigandi fræðara og ábyrgð, hvort slík börn eru nægilega uppfrædd og hæf til að takast til fermingar.”

Ég spyr bara, liggur það ekki ljóst fyrir að Helgi var of ungur þegar hann staðfesti skírn sína og þaraf leiðandi er hún ekki gild? Mér finnst þetta liggja svo í augum uppi að ég hreinlega skil ekki hvernig þetta mál hefur verið meðhöndlað, er virkilega enginn lögfræðingur þarna úti sem vill hjálpa þessum manni í hárri elli að fá loksins þá niðurstöðu í þetta mál sem hann á skilið.

Ég trúi ekki að við lifum við dómskerfi þar sem okkur finnst í lagi að koma svona fram við fólk.

Frelsum Helga.