Nú hef ég í mörg ár unnið við afgreiðslu og þjónustustörf hér á landi og annarsstaðar á hinum ýmsu stöðum. Mér hefur á þessum tíma lærst ýmislegt um hegðan fólk og aðalega það hvernig á ekki að vera þegar maður er viðskiptavinurinn. Hér koma nokkur dæmi um hvað á að gera og hvað ekki:

- Þegar beðið er í röð er æskilegt að bæði vera búin að ákveða hvað kaupa skal (t.d. hvaða mynd maður ætlar á í bíó) og vera búinn að taka upp veskið og finna til rétta kortið eða peninginn. Einhvernvegin tekst fólki of oft að tefja röðina enn frekar með því að virða þetta ekki.

- Þreyttir aulabrandarar skemmta afgreiðslufólki aldrei og þá meina ég aldrei. Finndist þér fyndið að heyra í sjöþúsundasta sinn “þú reifst miðann minn” ef þú værir dyravörður í bíói?

- Míkrafónar og annað slíkt sem afgreiðslufólk þarf að nota eru ekki til að gera grín í.

- Veitingahús eru með ákveðna matseðla af ástæðu, ekki reyna stöðugt að panta eitthvað sem er ekki á honum og vera svo fúll ef það er ekki til.

- Ef þú asnast til að missa drykkinn þinn í gólfið eða bjáninn við hliðina á þér rekur sig í hann þá er það ekki á ábyrgð þess sem seldi þér drykkinn að láta þig fá nýjan. Reyndu frekar að rukka bjánann um hann eða sparkaðu í sjálfan þig fyrir að vera klaufi.

- Ef þú átt börn reyndu þá að hafa hemil á þeim þegar þau eru á almannafæri. Það er ekki hlutverk afgreiðslufólksins og almenn kurteisi við aðra viðskiptavini.

- Það er ekki afgreiðslufólkinu að kenna að verðlag sé hátt. Kvartaðu við eigandann eða haltu því fyrir sjálfan þig.

- Kertastjakar eru ekki öskubakkar og glös eru ekki fyrir munntóbak!

- Setningar eins og “sko, ég er nú ekki vön að kvarta en …” segja okkur bara að þú kvartir stöðugt yfir öllu.

- Þegar skemmtistaðir kveikja ljósin, slökkva á tónlistinni og dyraverðir labba um og segja að nú sé búið að loka þá þýðir það að það ER búið að loka. Ekki reyna að sannfæra barþjónana um annað, þeir vilja bara fara heim og þú hefur ekkert við annan drykk að gera hvorteðer.

- Drukkinn viðskiptavinur hefur EKKI alltaf rétt fyrir sér.

- Það að “þekkja” eigandann er yfirleitt ósköp ómerkilegt í okkar eyrum.

- Ef það kemur ekki heimild á kortið þá kemur ekki heimild sama hversu oft kortinu er rennt í gegn.

- Ef þú lítur niður á þann sem er að afgreiða þig og talar niður til hans geturðu bókað það að þú færð lélega þjónustu og átt það skilið.

- Þeim mun meira sem þú reynir að æpa á afgreiðslumanneskjuna að þú sért sko næstur, þeim mun aftar í röðinni lendir þú. Bara óskráð lögmál, bíddu frekar þolinmóður því það kemur að þér á endanum.

Nú munu ábyggilega sumir sem lesa þetta rjúka upp til handa og fóta og benda á það að afgreiðslufólk geti líka af fyrrabragði verið dónalegt og lélegt og latt … en hei … það er ekkert til umræðu hér. Ég er að tala um það hvernig á að vera betri viðskiptavinur. Það er líka bara staðreynd að ef þú kemur fram við aðra af kurteisi og virðingu þá færðu nánast alltaf það sama til baka. Gullna reglan.