Hinn illi tvíburi Jakobs F. Ásgeirssonar, Ólafur Teitur Guðnason, lætur að sér kveða Viðskiptablaðinu þ. 24.9. sl. í tveim heilsíðugreinum fremur en einni. Bróðir hans Jakob er þekktur fyrir ljúfmælgi, lof og tilbeiðslu verðugra efna í skrifum sínum, svo sem formanns Sjálfstæðisflokksins og hans nánustu og kærustu, en ætíð virðist eldur og brennisteinn fljúga þegar Ólafur Teitur heldur gandreið inn á ritvöll. En nóg um það.
Ólafur Teitur vegur í fyrrnefndu tölublaði enn sem honum er tamt að norskum hætti að sinni uppáhalds vindmyllu, meintum afflutningi frétta í vissum fjölmiðlum hérlendum. Hann tínir til dæmi um það sem hann kallar “ótrúlega fréttafölsun”, sem er, að vitnað var svo í norskan forsætisráðherra að ESB aðild yrði helsta kosningamálið, þegar hann sagði að það yrði eitt af helstu kosningamálunum. Og annað í þeim dúr. Hann er steinhissa þegar Fréttablaðið birtir skoðanakönnun sem sýnir að þá er meirihluti á móti ríkisstjórninni, undir fyrirsögninni “Meirihluti á móti ríkisstjórninni”. Ja hérna hér, það munar ekki um falsanirnar. Þótt þessi skrif séu nógu hlægileg út af fyrir sig, þá verður kómíkin í kringum þau öllu meiri þegar skoðað er annað efni tölublaðsins sem þau birtast í. Hér er sum sé um að ræða Viðskiptablaðið, sem Ólafur Teitur starfar við og hefur sérstakan skoðanaaðgang að, miðað við hve mikið efni birtist eftir hann í blaðinu (raunar gæti mér skjátlast um þetta atriði; vel getur verið að Ólafur Teitur hafi beðið ritstjóra að birta þrjár heilsíðugreinar eftir sig í tölublaðinu 24., en ritstjórinn svarað “Það er alveg ófrávíkjanleg regla að tvær heilsíðugreinar per tölublað per höfund eru algjört hámark hjá okkur, Ólafur Teitur, og þú getur drullað þér út með þessa þriðju grein þína, DRULLAÐU ÞÉR ÚÚÚÚÚT!”). Á forsíðu tölublaðsins birtist einmitt vísun í aðra grein Ólafs Teits undir fyrirsögn “Jón Steinar keyrður út í horn”, og grein sem er að upplagi og uppistöðu ekkert annað en skoðanir og ítarlegar bollaleggingar einhvers Óla er dulbúin sem frétt. Svo birtist opnugrein á bls. 8, og er um að ræða frétt eftir einn af föstum blaðamönnum (annað er allavega ekki að ráða), undir aukafyrirsögninni “Vísvitandi stefnt að áframhaldandi vandræðum í borgarumferðinni”. M.ö.o. sterklega gefið í skyn í fyrirsögn fréttar að borgaryfirvöld hafi það að raunverulegu markmiði að skemma borgarsamfélagið að þessu leyti. Svona er nú fréttamennskan á þeim bæ, og enn sannast það að ekki er gott að kasta upp í glerhúsi, því þá sjá allir á rúðunum hvaða ólyfjan maður hafði með morgunmatnum.
Maður ætti svo sem að láta það órætt þegar Ólafur Teitur eða einhver tittur tjáir sig með misheppnuðum hætti, en þegar það gengur svona, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, um sama margtuggna efnið, eins og höfundur sé hræddur um að skoðun hans komist ekki á almennt vitorð með því að láta hana bara einu sinni uppi, og það þó um sé að ræða skrif sem beint er til pólitískt einhverfra, þá kemur nú að því að ekki verður orða bundist. Þarna er þó líklega um að ræða veilu eina sem nokkuð hefur verið rannsökuð; koma þá viss orð hinum þjáða úr jafnvægi, einn gat td. ekki heyrt orðið “klútasamsetning” án þess að fá stöðuga kippi eða fjörfisk í vinstra augnlok. Þá er þekkt að orðin “Baugur” og “Fréttablaðið” hafi þessa verkun, og þessu er oft samfara taugaklemma í vinstri olnboga sem aftur leiðir til titrings í 2-3 fingrum vinstri handar. Þess er getið að ef þetta ástand er til staðar við skriftir, geta fingur sífellt slegist í takkana “SHIFT” og “1”, og þannig prentast táknið “!” oftar en æskilegt er.