Í gær skiptust þeir Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson á embættum. Dagurinn er nokkuð merkur, en aldrei hefur neinn setið jafnlengi í embætti forsætisráðherra og Davíð. Þegar Halldór tók við lyklunum af stjórnarráðinu í gær sagði hann að þetta met yrði seint slegið, 13 ár 4 mánuðir og 16 dagar.

Siv Friðleifsdóttir hætti einnig sem umhverfisráðherra og Sigríður Anna Þórðardóttir tók við. Eftir þessar breytingar eru því ráðherrar Sjálfstæðisflokksins orðnir sjö í ríkisstjórninni, en Framsókn er með fimm ráðherra. Því eru valdahlutföllin orðin eðlilegri eftir þessar breytingar, enda er Sjálfstæðisflokkurinn mun stærri en Framsókn.

Það hefur mikið verið fjallað um valdatíð Davíðs Oddssonar í fjölmiðlum í dag og í gær. Flestum ber saman um, bæði stuðningsmönnum og andstæðingum hans, að afrek Davíðs í embætti hafa verið einstök. Ekki ætla ég að leggjast í það að skrifa fræðilega umfjöllun um valdatíð Davíðs, en samanburður á íslensku samfélagi núna og fyrir 13 árum sýnir okkur hvað hefur áunnist.

Ég tel hinsvegar að það muni ekki margt breytast við þessi skipti. Ef marka má ummæli Halldórs í gær ætlar hann að halda áfram að vinna í skattalækkunarmálunum, sölu Símans og fleiru því sem hefur verið á borði forsætisráðherra. Það verður hinsvegar meira spennandi að fylgjast með Davíð í nýju ráðuneyti, enda eru varnarmálin þau mál sem bíða hans. Davíð nýtur þess að vera orðin vel þekktur á alþjóðavísu eftir langa forsætisráðherratíð sína og ætti það að hjálpa til við samningaviðræðurnar.