Hvar á flugvöllurinn að vera?

Umræðan um Reykjarvíkurflugvöll hefur ekki farið framhjá neinum. Þann 17. mars sl. var efnt til kosninga þar sem Reykvíkingar fengu að kjósa um hvort þeir vildu flugvöllinn í Vatnsmýrinni eða ekki eftir að núgildandi svæðisskipulagi lýkur árið 2016. Flugvöllurinn hefur verið í Vatnsmýrinni um árabil, allt frá því að Bretar byggðu hann í seinni heimstyrjöldinni. Mörgu yngra fólki þykir hann vera nokkurskonar náttúrulögmál, enda alltaf vanist því að flugvöllurinn væri þar sem hann er. Málið varð allt mjög pólitískt. Ýmsir gamalgrónir og íhaldssamir Reykvíkingar og fólk á landsbyggðinni var hvað harðast í að vilja halda flugvellinum í höfuðborginni. Þessir sömu aðilar reyndu að snúa málinu í „höfuðborgin gegn landsbyggðinni“ og reyndu að fá fólk til að „taka tillit“ til landsbyggðarfólks sem kemur fljúgandi utan af landi og vill komast beint til höfuðborgarinnar. Þessir sömu aðilar bentu á kost Reykjarvíkurflugvallar fyrir sjúkraflug. Maður spyr sig því, er eitthvert vit í því að færa völlinn?

Forsaga

Bretar hernámu Ísland þann 10. maí 1940 þegar heimstyrjöldin síðari geysaði um alla Evrópu. Á þeirra vegum var fljótlega hafist handa við flugvallargerð enda flugvélar nauðsynlegt samgöngutæki í stríðsrekstri. Flugvellinum var valinn staður í Vatnsmýrinni, sem á þeim tíma var í útjaðri Reykjavíkurborgar. Eftir að stríðinu lauk eignuðust Íslendingar flugvöllinn og hófu flugrekstur sem hefur með árunum aukist jafnt og þétt enda flugsamgöngur okkur Íslendingum afar mikilvægar. Við þéttingu byggðar á miðbæjarsvæði þurfti ávallt að taka tillit til flugvallarins og hæð bygginga að miðast við að valda ekki truflun á leið flugvéla að og frá vellinum. Með aukinni byggð og stækkandi borg var flugvöllurinn ekki lengur í útjaðri borgarinnar heldur mjög miðsvæðis, nálægt hjarta borgarinnar. Af og til hafa komið upp umræður um staðsetningu flugvallarins og hvort beri að færa hann en þær umræður hafa ávallt dáið út án þess að til aðgerða hafi verið gripið. Vegna þess að staðsetning flugvallarins hefur verið deilumál í gegnum árin hefur honum ekki verið haldið við sem skyldi og var svo komið að ástand hans var orðið slæmt og nauðsynlegt að gera á honum úrbætur til að lágmarks öryggiskröfum væri fullnægt. Því var ráðist í viðgerð á vellinum, sem nú standa yfir og munu þær kosta ríkissjóð fleiri milljarða króna. Mörgum finnst skrýtið að á sama tíma skuli umræðan nú snúast um að færa völlinn af núverandi stað.

Hvernig getur staðsetning flugvallar verið umhverfismál?

Öll mál eru í eðli sínu umhverfismál. Staðsetning stórs flugvallar sem tekur upp mikið landrými í þéttri byggð er mikilvægt umhverfismál. Nýting landrýmis í borgum hefur margvíslegar afleiðingar fyrir þróun byggðarinnar og hvernig fólk þarf að bera sig að til að koma sér um innan hennar. Flugumferð, svo nauðsynleg sem hún nú er fyrir okkur, skapar einnig ýmsar hættur svo sem mengunarhættu, slysahættu, hávaða- og sjónmengun. Að hafa flugvöll inni í miðri borg skapar ýmsar hættur þó visst hagræði sé af því að þurfa ekki að aka langar leiðir til þess að komast að honum. Það er mikilvægt að fólkið sem býr í borginni hafi skoðannir á því hvernig það vilji að byggðin þróist og taki þannig virkan þátt í að móta umhverfi sitt (

Kostir og gallar þess að hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni

Maðurinn er háður samgöngum í lofti, láði og legi og því afar mikilvægt að tryggja gott aðgengi að þeim, fyrir sem flesta. Reykjavík sem höfuðborg landsins hefur ótvíræðum skyldum að gegna sem miðstöð innanlandsflugs eins og annarra samgangna. Út frá þeim punkti er flugvöllurinn ómissandi hluti af Reykjavík. Óeðlilegt er að kasta á glæ þeim fjárfestingum sem lagðar hafa verið í uppbyggingu flugvallarsvæðisins bæði fyrr og síðar. Eðlilegra væri að hlúa að og bæta skipulagið umhverfis völlinn til að tengja betur saman þau þjónustufyrirtæki sem byggð hafa verið í tengslum við völlinn.
Landlæknir og forsvarsmaður Almannavarna hafa lýst yfir mikilvægi staðsetningu vallarins fyrir sjúkraflug og almannavarnir landsins.

Megin rökin fyrir því að færa flugvöllinn úr Vatnsmýrinni eru að með því losnar dýrmætt byggingarland fyrir íbúðarbyggð. Samtök um betri byggð á höfuðborgarsvæðinu meta verðmæti lóða í Vatnsmýrinni á 51,6 milljarða króna. Verðmætamatið byggist á 129 hekturum af lóðum, 2,3 milljónum fermetra af húsum og 400 milljónir króna fyrir hvern fermetra. Samtökin benda einnig á að verði flugvöllurinn áfram í Vatnsmýrinni og byggð haldi áfram að dreifast upp til fjalla og með ströndinni þýði það einungis aukna mengun og fleiri umferðaslys. Trausti Valsson, skipulagsfræðingur og dósent við Háskóla Íslands, er ötull talsmaður þess að flugvöllurinn hverfi úr Vatnsmýrinni og setti hann fram hugmynd árið 1974 að byggja flugvöll á Lönguskerjum í Skerjafirði. Hann telur að kjarninn í öllum skipulagsmálum snúist um það hvernig lífi við viljum lifa.


„Viljum við í framtíðinni vera hangsandi í biðröðum við rauð gatnaljós daginn út og inn og akandi klukkutímunum saman borgarhluta á milli? Reykjavík er skipulögð sem bílaborg út frá þeirri megin forsendu að bensínverð haldist lágt. Hin mikla útþynning byggðarinnar þýðir að almenningssamgöngur þrífast illa og verða enn erfiðari ef núverandi hugmyndir um enn meiri dreifingu byggðarinnar ganga eftir. Tvo bíla þarf á heimili svo vel eigi að vera ef bæði hjónin eru akandi auk þess sem unglingarnir þurfa helst sína einkabíla um leið og þeir fá bílpróf. Skipulag höfuðborgarinnar kallar á endalausar bílferðir. Bíllinn ræður för í skipulagningu og allt líf okkar er mótað af þessari bílatilveru. Dæmi um hve lítið við gerum til að komast hjá því að nota bílinn með skipulagsaðgerðum má nefna að í staðinn fyrir að gera ráð fyrir því að nemendur háskólans búi í íbúðarturnum á Háskólasvæðinu, eins og tíðkast víða annars staðar, eru háskólabyggingar hér svo dreifðar um svæðið að menn þurfa jafnvel að keyra á milli þeirra.“

Brynjólfur Mogensen yfirlæknir slysadeildar Landspítalans lýsti því yfir að völlurinn væri æskilegur en ekki “lífsnauðsynlegur” varðandi sjúkraflug. Það er þyrluaðstaða við Land-spítalann í Fossvogi en á síðasta ári voru 150 tilvik þar sem þyrlur lentu með sjúklinga við spítalann.
Samkvæmt stöðlum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar er flugvöllurinn í Vatnsmýrinni ólöglegur. Byggð er of nálægt norðurenda norðursuður brautar, einnig eru flugturninn og hótelið of nálægt brautinni. Þessar tvær byggingar standa upp úr öryggisfleti brautarinnar. Á hinu 300 metra breiða öryggissvæði NS brautarinnar sem samkvæmt öllum stöðlum, reglum og kröfum á að vera hindrunarlaust hefur árum saman staðið flugskýli. Öryggissvæðin á austur/vestur brautinni eru á stórum svæðum of mjó. Einnig standa húsin í Skerjafirði of nálægt og einnig er brautin aðeins 1500 m löng, brautir verða að vera 1800 m til að vera taldar löglegar fyrir blindflug og farþegaþotur. Þá vantar innflugsljós við alla brautarenda. Ef koma ætti fyrir innflugsljósum þyrftu þau að koma í Hljómskálagarðinn og út frá brautarendum úti í Skerjafirði.
Það er því mjög dapurlegt að flugmálayfirvöld hafi ráðist í stórar framkvæmd eins og þessa og ekki látið völlinn fylgja kröfum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar.
Vatnsmýrin er mikilvægur þáttur í fuglalífi í Reykjavík. Í aðalskipulagi Reykjarvíkur er miðað við að Reykjavíkurflugvöllur verði enn miðstöð innanlandsflugs út skipulagstímabilið, 1990-2010. Hins vegar er lagt til að það verði gert áhættumat vegna flugvallarins. Þar má nefna æfinga-, kennslu- og einkaflug verði flutt á nýjan flugvöll í nágrenni höfuðborgarinnar, eldneytisgeymum verði komið fyrir á einum stað, settar verði reglur um hávaðatakmarkanir og hætt verði að nota norðaustur – suðvestur flugbrautina. Í deiluskipulagi frá 1986 er sú meginbreyting ráðgerð að flugstöðin verði flutt aftur fyrir völlinn.

Aðrir kostir í stöðunni

En hvert á að flytja völlinn? Í byrjun 8. áratugarins voru uppi hugmyndir um að flytja völlinn út á Álftanes. Þeir fáu íbúar sem þá bjuggu í Bessastaðahreppi mótmæltu kröftuglega og var horfið frá þeirri hugmynd. Eftir á að hyggja hefði það líklega verið lang besti kosturinn sem framtíðarsvæði flugvallarins, enda hefði sú staðsetning uppfyllt öll skilyrði um nálægð við höfuðborgina og fyrir gott flugvallarstæði. Ágúst Einarsson varaþingmaður Samfylkingarinnar hefur sett fram svipaða hugmynd um að byggja flugvöll í Bessastaðahreppi, en hún gerir ráð fyrir flugvelli á Bessastaðanesi í túnfæti forsetabústaðarins að Bessastöðum.
Önnur hugmynd var sú að færa flugvöllinn í Hvassahraun, sunnan Hafnarfjarðar, þar sem stutt er bæði til Reykjavíkur og Keflavíkur, þar sem miðstöð millilandaflugs er starfrækt. Nú standa yfir nánari rannsóknir á því flugvallastæði.
Þriðja hugmyndin er að færa miðstöð innanlandsflugs til Keflavíkur. Líklega er það ódýrasti kosturinn þegar litið er til uppbyggingar og reksturs en þá er ekki reiknað með óhagræðinu, bæði tíma og peningum, sem það veldur þeim þurfa að nýta sér völlinn. Mörgum óar sú tilhugsun að ætli maður til Vestmannaeyja með flugi þurfi maður fyrst að fara til Keflavíkur og taka þaðan flugvél til Eyja.

-vona að einhver nenni að lesa =)
-Kamalflos