Kristni og þjóðkirkjan Kristni

Áður en greinin hefst ætla ég að biðja ykkur um að lesa trúarjátninguna hér að neðan og íhuga hvort þið trúið á hana.

„Ég trúi á Guð, föður almáttugan,
skapara himins og jarðar.
Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason,
Drottin vorn, sem getinn er af heilögum anda,
fæddur af Maríu mey,
píndur á dögum Pontíusar Pílatusar,
krossfestur, dáinn og grafinn,
steig niður til heljar,
reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum,
steig upp til himna,
situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs
og mun þaðan koma að dæma
lifendur og dauða.
Ég trúi á heilagan anda,
heilaga, almenna kirkju,
samfélag heilagra,
fyrirgefningu syndanna,
upprisu holdsins og eilíft líf.
Amen.“

Á heimasíðu Hagstofunnar sé ég að samkvæmt þjóðskrá eru 87% þjóðarinnar í þjóðkirkjunni, en það þýðir að næstum níu af hverjum tíu á Íslandi trúa því sem stendur hér að ofan! Þetta finnst mér sláandi staðreynd þar sem sjálfur trúi ég ekki einu orði þarna og finnst ótrúlegt að aðrir geri það. Ég trúi ekki að Guð hafi skapað himininn og jörðina, ég trúi ekki að Jesú hafi farið til helvítis og risið upp til himna og muni þaðan koma að dæma mig og alla aðra á jörðinni af mínum gjörðum í lífinu. Ég tel að hegðun fólks sé eins og stærðfræðiformúla, þú setur inn ákveðnar breytur, erfðaþátt og umhverfisþætti, og útkoman fer eftir því. Semsagt, hvort þú takir „rétta“ ákvörðun á einhverjum tímapunkti ræðst einfaldlega af fyrri reynslu, uppeldi og öðrum umhverfisþáttum, en ekki hversu „góður“ eða „vondur“ þú ert. Ég er ekki að segja að maður geti ekki ákveðið hluti sjálfur, ég er bara að segja að maður ákveður þá á ákveðnum forsendum og þær forsendur eru ekki meðfæddar nema að litlu leyti.

„Hermönnum bandaríkjanna er uppálagt að biðja fyrir forseta sínum og ráðuneyti hans. Þeir fá litla bók í hendurnar með bænum fyrir vikuna til að lesa. Eitt blaðanna er hægt að rífa úr til að senda til Hvíta Hússins til að forsetinn viti af því að hermenn hans biðji fyrir honum. Ein bæn er fyrir hvern dag vikunnar í bæklingnum.

Sunnudagsbænin hljóðar svo: “Ég bið að forsetinn og ráðgjafar hans leiti eftir visku guðs og treysti ekki á eigin dómgreind,” og mánudagsbænin: "Ég bið að forsetinn og ráðgjafar hans búi yfir nægilegum styrk og hugrekki til að breyta rétt þrátt fyrir gagnrýni.“ [http://birgir.com/blogg160303-310303.html]

Auðvitað er þetta bara dæmi, en í mínum augum er krisni þarna beinlínis hættuleg dómgreindinni og finnst mér asnalegt að fara eftir því sem þú telur að Guð vilji, í staðin fyrir að fara eftir eigin sannfæringu.

Þannig er mál með vexti á Íslandi að hluti útsvarsins sem þú borgar fer til þess söfnuðar sem þú ert skráður í. 87% landsmanna borga þjóðkirkjunni, 11% öðrum trúfélögum en einungis 2% borga Háskóla Íslands, því ef þú ert utan trúfélags fær Háskólinn þetta hlutfall. Þjóðkirkjan græðir stórar fjárhæðir með þessu móti og útskýrir það hve tíð safnaðarheimilin eru á Íslandi. Þegar þú fæðist gengur þú sjálfkrafa í trúfélag móður þinnar og þegar þú ert skírður gengur þú líka í trúfélag. Mjög margir fermast og til þess þarftu að vera skírður. Vegna þessara þátta er hlutfall landsmanna í þjóðkirkjunni svona hátt. Sjálfum finnst mér að við fæðingu eigi maður ekki að vera í trúfélagi. Einnig finnst mér fermingaraldurinn of lágur, sjálfur fermdist ég, en ef ég væri spurður um það í dag myndi ég ekki gera það. Það sama á við um skírnina, hún ætti að fara fram samhliða fermingu en ekki einhverntíman í barnæsku þegar þú hefur nákvæmlega ekkert um málið að segja. Ágætis aldur fyrir skírn og fermingu væri sextán ára. Með þessu móti fengi Háskólinn miklu meiri peninga til ráðstöfunar og mér finnst meira gagn vera í menntastofnunum en safnaðarheimilum, þar sem sannað er að því hærra sem menntunarstig þjóðar er, því meiri er þjóðarframleiðslan og velferðin. Þarna á orðatiltækið mennt er máttur vel við.

Niðurstaðan er að kristni á ekki að skipa jafn háan sess í þjóðfélagin eins og áður fyrr, aðskilja ætti ríki og kirkju og draga úr þessum gríðarlegu fjárframlögum til þjóðkirkjunnar. Þó trúfrelsi sé sagt í gildi á Íslandi næst það ekki að fullu fyrr en einstaklingurinn ákveður sjálfur hvaða trúfélag hann vill ganga í. Þetta er næstum eins og að segja að á Íslandi sé skoðanafrelsi en samt kjósi maður sjálfkrafa sama stjórnmálaflokk og móðir sín. Mín skoðun er sú að það séu mikilvægari hlutir en kristni í nútímasamfélagi og við eigum að hætta að eyða tíma og peningum í alla þessa presta, kirkjur og safnaðarheimili í svona miklum mæli, þótt fyrr hefði verið. Það væri gaman að vita hvað hefði gerst ef kirkjan hefði aldrei náð jafnmiklum völdum í heiminum og raunin varð og vísindin hefðu verið látin blómstra í staðinn. Við værum örugglega mun betur stödd, a.m.k. hvað þekkingu, tækni og lífsgæði varðar. Takk fyrir lesturinn ;)