Jæja, nú er það komið í ljós að meirihluti þjóðarinnar (aldurinn 18-75) vill banna reykingar inni á veitingahúsum, kaffihúsum og skemmtistöðum.
Talan var reyndar 75% á móti 25%, sem er reyndar ekki skrýtið því þetta er sama hlutfall og hlutfall þeirra sem reykja og ekki reykja á landinu.
En minnkar því hagur reykingamanna og fer að verða fokið í flest skjól. Hérna keppist fólk um að fagna þessu og talar um það að loksins verði þessi óþverri bannaður á þessum stöðum. Frábærar fréttir er það ekki???
Nei ekki aldeilis, mér finnst alltaf jafn heillandi að sjá hvað blessað forræðishyggjufólkið virðist alltaf vera með allt á hreinu, okkur rugludöllunum er ekki treystandi til að ákveða það sjálfir hvað okkur er fyrir bestu.
Nú skulum við aðeins fara yfir hvað þetta bann myndi hafa í för með sér.
Í fyrsta lagi munu einhver hluti kaffihúsa fara á hausinn því þau byggja afkomu sína á fólki sem kemur þangað í þeim tilgangi að fá sér kaffi og sígó, þetta veit ég vegna þess að ég hef unnið í þessum bransa í mörg ár og veit hvernig skiptingin er á milli Reyk og reyksvæða á þessum stöðum. Það er þumalputtaregla að það eru yfirleitt helmingi fleiri reykmegin en á reyklausu hliðinni.
En hvernig má það vera, hvernig stendur á því að 75% þjóðarinnar er fylgjandi þessu banni? Við skulum skoða þessa nýjustu könnun, þar var fólk á aldrinum 18-75 ára spurt. Hefði ekki verið eðlilegra að spurja fólk fyrst hvort það færi yfir höfuð mikið á svona staði, ég þykist nokkuð viss um það að kúnnahópur þessara staða dreifist ekki jafn yfir alla þessa aldursflokka (18 ára fólk má t.d. ekki vera inná þessum stöðum og ég sé ekki mikið af fólki á sjötugs og áttræðisaldri þegar ég fer á djammið)
Þar að auki hefur þetta í för með sér stóraukin kostnað fyrir skemmtistaði því ekki verður lengur nóg að vera með starfsfólk í dyrunum heldur þurfa að vera sígaretturverðir inni á stöðunum til að taka á “lögbrjótunum” og hvert haldiði að þess aukakostnaður fari, hann fer allavega ekki úr vasa veitingamannana… þar að auki þurfa þeir líka að vinna upp tekjuleysi vikunnar þar sem minna verður að gera í “kaffi og sígó” bransanum.
Nú veit ég að margir segja að þetta hafi gefist ágætlega í löndunum í kringum okkur, viðskiptin hafi aðeins minnkað “lítillega”, íslenski markaðurinn er bara svo lítill og þessi rekstur er alveg nógu erfiður hjá velflestum stöðunum hér á landi til þess að þetta sé áhætta sem er þess virði að taka. Svo má fólk ekki gleyma því að í löndunum í kring er miklu ríkari hefð fyrir krám og kaffihúsum en hér á landi, fólk gerir sér kannski ekki grein fyrir því en áður en bjórinn var leyfðu hér fyrir 15 árum þá þekktust varla svona staðir hérna.

Svo leyfi ég mér að efast stórlega um réttmæti þess hvernig þessi spurning er lögð fram. Spurt er: “Ert þú fylgjandi reykingabanni á Veitingahúsum, Krám, kaffihúsum og skemmtistöðum” Þetta er merkileg spurning í ljósi þess að nú þegar eru í gildi lög þess efnis að meira en helmingur sæta á Veitingahúsum, krám og kaffihúsum á að vera reyklaus og geta því þeir sem ekki reykja farið á alla þessa staði án þess að þurfa anda að sér sígarettureyk, auk þess sem fjölmargir staðir eru nú þegar alveg reyklausir.
Svo eru nú þessir reyklausu ekki merkilegri pappír en það að þeir treysta ekki hver öðrum. Fyrst að það eru bara 25% sem eru móti þessu banni þá ætti nú ekki að vera mikið mál fyrir hin 75% að verlsa eingöngu við þau fyrirtæki sem banna alfarið reykingar, við sem reykjum höfum nú varla bolmagn til þess að halda uppi öllum veitinga, kaffi og skemmtistöðum á landinu…..

En svo bendir nú fólk líka á að reykingafólk séu þungir baggi á þjóðfélaginu og það vinni illa vegna þess að það er alltaf í reykingapásum.
Eigum við þá að banna of feitan mat á veitingastöðum svo að fólk verði ekki feitt, nú er það sannað að offita verður fljótlega helsta dauðaorsök í hinum vestræna heimi. Banna nammi og banna sykraða gosdrykki. Fyrst að okkur reykingamönnum er ekki treystandi til að sjá um okkur sjálf er þá fólki sem ræður ekki við matarlystina eitthvað frekar treystandi.
Fyrst við erum komin í þennan pakka, eigum við þá ekki líka að banna áfengi því að það er fólk sem drekkur frá sér allt vit og eyðileggur sitt líf og fjölskyldunnar.
Svo getum við bannað einstæðum mæðrum að vinna því þeir eru oftast þreyttari og taka fleiri veikindadaga á ári en við “venjulega fólkið”
Svo getum við líka bannað of feitu fólki að vinna því að það hreyfir sig hægar og verður fyrr þreytt, því næst getum við snúið okkur að fötluðum, geðveikum, blindum, heyrnarlausum, mállausum, þeim sem keyra of hratt, þeim sem drekka oftar en 2 í mánuði o.s.frv.
Það er reyndar merkilegt að benda á það að reykingamenn og drykkjumenn skera sig soldið úr þessum hópi að því leyti að þeir eru þeir einu sem borga ríkinu marga miljarða á hverju ári fyrir sína fötlun, annað en hinir.

En það sem ég vil semsagt segja er þetta, ef þið reyklausir eruð svo miklar “gungur og druslur” að þið treystið ykkur ekki sjálf til að fara ekki inná staði sem leyfa reykingar og þurfið að fá ríkisvaldið til að redda því fyrir ykkur, ættuð bara að líta í eigin barm og hugsa um eitthvað annað en ykkur sjálf. Mér finnst mjög lítið mál að finna mér annan stað til að fara á ef sá sem ég ætla á er reyklaus, sama gildir ef ég fíla ekki tónlistina sem er spiluð á hinum og þessum skemmtistöðum eða ef fólkið er leiðinlegt þar sem ég er, ég þarf ekki að fá neinn annan til að reka fólkið sem ég fíla ekki út, ég færi mig bara sjálfur.