Oft hefur verið rætt um hve mikil áhrif enskunnar eru á Íslandi (gagnrýnendur hennar fara þá oft í sparifötin og kalla hana engilsexnesku) og mörgum finnst hún alveg hræðileg, íslenskan sé í hættu og ég veit ekki hvað. Ég byrjaði að hugsa um þetta um daginn þegar ég skoðaði stefnuskrá Framfaraflokksins, þeir ætluðu að redda þessu með því að byrja að kenna þýsku í fjórða bekk, lukkulega þá á þessi flokkur aldrei að lenda í þeirri aðstöðu að þurfa að koma þessarri hugmynd sinni í framkvæmd og þar með finna þýskukennara fyrir 6 árganga af grunnskólanemum, ætli þeir þyrftu ekki að flytja inn Þjóðverja í stórum stíl til að sjá um það.

Mitt álit er að enskan hafi verið okkur mjög mikilvæg, ég efast um að staða okkar í heiminum væri jafn góð ef stór hluti Íslendinga væru ekki svona góðir í ensku.

En hvað með þessi hræðilegu áhrif enskunnar? Hver eru þau? Það versta sem mér dettur í hug er að ákveðinn hópur af unglingum verður óskiljanlegur á vissum aldri ef maður skilur ekki ensku, þeir ná sér yfirleitt innan nokkurra ára og það er hvort eð er ekkert mikið vit í því sem þeir hafa að segja á þessum aldri.

Íslendingar hafa fjölda illskeittra íslenskufræðinga sem viðhalda hreinleika tungunnar með valdi og hroka, munið þið eftir Alnetinu? Kristján Eldjárn fyrrverandi forseti náði að koma með gott orð yfir þá sem stunda þessu stefnu yfirburða íslenskunnar, hann kallaði þá “kúltúrsnobbara” (ef einhver kúltúrsnobbari gerir athugasemd við það að ég nota ekki íslenskar gæsalappir þá hef ég einfalt svar við því: ég nenni því ekki - góð og falleg sögn: að nenna, ég hef ekki fundið neina jafngóða á erlendum tungumálum).

Á Huga sjáum við oft hve gott er að geta gert ráð fyrir því lesendur kunni ensku, maður vitnar oft í greinar á ensku og þarf ekki að hafa fyrir þýðingum.

Mér er illa við það hvernig baráttan fyrir íslensku hefur náð að minnka enskukunnáttuna, talsetningar á teiknimyndum pirra mig og mig grunar að áhrif þessarra telsetninga séu meira að segja slæmar fyrir íslenskuna. Þegar ég var lítill þá var helsta hvatning mín til að læra að lesa það að geta lesið textann í sjónvarpinu, einnig lærði ég ensku af þessu sjónvarpsefni.

Ættum við ekki að reyna að efla enskuna í stað þess að berjast gegn henni? Þarf það endilega að vera ósamrýmanlegt því að viðhalda íslenskunni?
<A href="