Heil og sæl

Ég get ekki orða bundist núna og finnst það skylda mín að vara fólk við þeim hjá Tryggingastofnun Ríkisins.

Þannig er að ég stunda nám við KHÍ á fyrsta ári. Nú fyrir jólin varð ég svo þeirrar ánægju aðnjótandi að verða ófrísk. Nú hef ég misst fóstur þrisvar sinnum og á tímabili um jólin virtist allt vera að fara á versta veg. Mér var því ráðlagt að minnka við mig námið og taka því rólega. Ég gerði það. Ég hætti í öllum fögunum sem ég var í nema tveimur. Smám saman varð ljóst að hættan var að líða hjá og barnið iðaði af lífi í bumbunni minni sem stækkaði ört. En ég er mjög slæm af grindargliðnun svo ég gat hvort eð er ekki verið í fullu námi og hélt mig því við þessi tvö fög sem ákveðin voru.

Nú á ég auðvitað ekki rétt á námslánum þar sem námshlutfall mitt er langt fyrir neðan 75% sem LÍN krefst af námsmönnum sínum, svo að ég ákvað að sækja um sjúkradagpeninga. En nei, þá kemur í ljós að svo framarlega sem ég er ekki ALGERLEGA ÓVINNUFÆR þá fæ ég ekki neitt hjá TR. Maðurinn minn er líka í námi og fær ekki full námslán vegna of hárra tekna síðasta vetur, sem voru þó ekki svo háar sérstaklega ekki með tilliti til þess að ég var með skitinn 40.000 kall í laun allt síðasta ár. En hvað á maður að gera, svo við gerum okkar besta til að reyna að þrauka og leggjumst eiginlega upp á foreldra okkar sem hafa séð fyrir okkur meira og minna síðan í janúar. (sjálfsálitið og stoltið er frekar laskað hjá okkur núna eins og þið getið kannski ímyndað ykkur)

En núna gat ég ekki meira og varð að hætta alveg í skólanum í byrjun apríl. Þá fer mín og hugsar með sér að nú geti ég loksins hætt að betla af foreldrum mínum og farið að sjá fyrir mér og fjölskyldunni minni sjálf á ný.
Ég fer og sæki um sjúkradagpeninga á ný og í þetta sinn er umsókn mín samþykkt og mér sagt að ég fái peningana eftir viku.

Jú jú vikan líður og þá kemur peningurinn ásamt bréfi þar sem segir: “Samþykkt hefur verið að greiða fulla sjúkradagpeninga, kr. 846,- á dag.” og seinna í bréfinu: “Barnaviðbót er greidd með börnum innan 18 ára kr. 231,- á dag.” (því allir vita að það kostar ekki nema 231 krónu á dag að sjá fyrir barni)

Vá… ég fæ heilar 32.310 krónur á mánuði!!! Hver getur ekki lifað ágætu lífi á því? Og ekki nóg með það, þar sem ég var svo dugleg að lifa af í þrjá mánuði án þess að fá nokkur laun, þá hef ég sannað það að ég þarf ekki á hjálp að halda og fæ því ekki nema 40.409 krónur á mánuði í fæðingarorlofinu mínu sem á að hefjast í haust.

Ef ég hefði ekki ákveðið að vera dugleg í janúar og vera áfram í þessum tveimur fögum, hefði bara ákveðið að leika mig aðeins meiri aumingja en ég er og hætt alveg í skólanum, þá hefði ég strax fengið sjúkradagpeninga í janúar og ætti rétt á 91.200 krónum á mánuði í fæðingarorlofinu mínu.

Ég fór í dag og spurði þá hjá TR hvort að þeir virkilega héldu að fólk gæti lifað á þessu. Konan sem afgreiddi mig var ósköp indæl og sagði mér að hún vissi ósköp vel að það væri ekki hægt. Hún ráðlagði mér að fara og tala við Félagsmálastofnun.

Ég fór þangað og þá loksins fæ ég að vita að ég hefði getað fengið styrk frá þeim strax í janúar ef ég hefði bara sótt um. Þetta hefði verið gaman að vita þá. Í raun og veru á ég ennþá rétt á bótum frá þeim, þar til á fimmtudaginn, því þá byrjar maðurinn minn í sumarvinnunni sinni og innkoman okkar verður hærri en 122.400 krónur á mánuði. Það hefði komið sér vel ef einhver hefði sagt mér frá þessum styrk sem féló veitir. Ég hafði nefninlega heyrt að þeir gætu ekkert hjálpað ef maður ætti sitt eigið húsnæði. Þeir gæfu bara húsaleigubætur.

Nú vonandi fer þetta að lagast hjá mér fyrst sumarvinnan fer að koma inn hjá manninum mínum, en hvað gerist svo í haust? Þegar hann fer aftur í nám og ég fæ þennan dýrðlega fæðingarstyrk?

Mitt ráð til allra sem eru á leið í fæðingarorlof er þetta: Ekki reyna að vera duglegar, ekki reyna eitt eða neitt, leikið ykkur meiri aumingja en þið eruð því dugnaður er afar refsivert athæfi að mati Tryggingastofnunar.

Kveðja
Tzipporah