Hægribeygja á rauðu ljósi Á undanförnum árum hefur, Hjálmar Árnason, þingmaður framsóknar, flutt nokkrum sinnum frumvarp um hægribeygju á rauðu ljósi, en aldrei komið því í gegn. Frumvarpið hljóðar svo:

“Ökumanni sem hyggst beygja til hægri við gatnamót á umferðarljósum er heimilt að beygja á móti rauðu ljósi nema sérstaklega sé tekið fram að það sé óheimilt. Hann skal þó ætíð stöðva eins og við stöðvunarskyldu og veita umferð sem kemur úr öðrum áttum forgang.”

Í greinargerðinni kemur meðal annars fram að Bandaríkin og Kanada hafa notað þessa reglu í mörg ár og reynslan af henni þar er mjög góð. Núna þarf bílstjóri sem ætlar að beygja til hægri á rauðu ljósi að bíða eftir grænu þó engin umferð sé á krossgötunni. Ef þessar hægribeygjur yrðu leyfðar væru svona aðstæður úr sögunni, biðtími margra bílstjóra myndi styttast, losað yrði um umferðarteppur á álagstímum og umferð um gatnamót væri mun auðveldari. Auk þess myndu fjármunir sparast því afreinar yrðu ekki eins þarfar lengur. Þetta kom einnig fram:

“Mikil fjölgun bifreiða kallar á stórfelldar og dýrar framkvæmdir við samgöngumannvirki til að umferð gangi öruggt og hindrunarlítið fyrir sig. Leyfi löggjöfin hægri beygju á móti rauðu ljósi mun slíkt verða til að auðvelda mjög umferð um gatnamót og spara sveitarfélögum stórfé sem þau ella þurfa að setja í ný samgöngumannvirki og vegi til að ná sama árangri. Á stöðum þar sem ekki er talið æskilegt að leyfa hægri beygju á móti rauðu ljósi væri slíks getið á viðkomandi gatnamótum. Bann við því að beygt sé til hægri mót rauðu ljósi er í umræddum löndum gefið til kynna með skilti sem á stendur „No turn on red“ ella gilda sömu reglur þegar beygt er til hægri og gilda þar sem stövunarskylda er á gatnamótum. Engin ástæða er til að ætla að regla sem þessi skili ekki sama jákvæða árangri í umferðinni hér á landi og hún gerir í Bandaríkjunum.”

Kolbrún Halldórsdóttir tók afstöðu gegn frumvarpinu og í andsvörum hennar kom fram að hjólreiðamenn sem væru á leiðinni yfir gangbraut hægra megin við ökumanninn sem ætlar að beygja til hægri væru í stóraukinni hættu. Ökumaðurinn væri að horfa til vinstri eftir umferð og tæki ekki eftir hjólreiðamanni á mikilli ferð á leiðinni yfir. Landssamtök hjólreiðamanna hafa einnig sett sig á móti þessu frumvarpi.

Mín skoðun er að treysta megi ökumönnum fyrir þessu, ef ökumaður er ekki í aðstöðu til að sjá hjólreiðafólk sem gæti verið á leiðinni yfir, ekur hann einfaldlega ekki af stað. Svo má alltaf setja upp skilti sambærileg “No turn on red” skiltunum vestanhafs ef hjólreiðastígur fer þar yfir gatnamótin. Mikill tími og peningar myndu sparast ef þessi lög yrðu sett í gildi og umferðin á Íslandi yrði mun greiðari.