Ótrúlegt hvað DV er mikill sorasnepill. Vinn í framhaldsskóla og þessu “síðdegisblaði” hefur verið dreift þar frítt undanfarna daga sem og í eina viku fyrir nokkru síðan. Greinilega verið að höfða til unglinga sem markhóps slúðurs og hálfkveðinna vísa

Nú er ég fylgjandi myndbirtingu kynferðisafbrotamanna, en þykir að til þess að réttlæta myndbirtinguna þurfi menn að hafa verið dæmdir sekir. Þessi mynd- og nafnbirting af prestinum sem játað hefur á sig kynferðisbrot gagnvart ungum dreng en þó ekki verið fundinn sekur um það fyrir dómstólum er langt út fyrir allt velsæmi að mínu mati. Eða nafn og myndbirting lögreglumannsins sem stal einhverjum dóppeningum. Hann hafði sagt starfi sínu lausu og skilað peningunum þegar andlit hans þakti forsíðu áðurnefnds síðdegisblaðs ásamt einhverri krassandi fyrirsögn sem ég ekki man. Já og umfjöllun, mynd- og nafnbirting í dag tengd manni sem er til rannsóknar vegna hugsanlegra kynferðisbrota gagnvart stúlkum á meðferðarheimili. Maðurinn hefur ekki einu sinni verið ákærður heldur er málið til rannsóknar. Er virkilega nægilegt að saka einhvern um eitthvað og sá hinn sami er “saltaður” í DV án þess að nokkrar sannanir liggi fyrir eða að lögregla eða saksóknari hafi metið málið og ákvörðun tekin um ákæru?

Í dag þá voru einnig þrjár heilsíður undirlagðar af skýrslu eins af þeim sem sitja í gæsluvarðhaldi vegna líkfundarins á Neskaupstað. Hvernig kemst svona í blöðin? Í skýrslunni eru nafngreindir menn sem koma málinu ekkert við og komu að því er virðist á engan hátt nálægt þessu. Blaðið birtir auk þess dag eftir dag mynd og nafn sambýliskonu eins að þeim sem grunaðir eru í málinu. Átján ára stelpu sem á allt lífið fram undan og virðist ekki tengjast þessu á annan hátt en að búa með einum þeirra grunuðu. Vegna þessa á þetta mál trúlega eftir að fylgja stúlkunni það sem eftir er.

Hvílíkri æsifréttamennsku er maður bara ekki vanur hér á landi og ég er ekki viss um að svona “meðal Jónar” eins og ég viljum venjast henni. Það er alveg hægt að flytja fréttir af allskonar “hneykslum” án þess að draga heilu fjölskyldurnar þar inn í sem óhjákvæmilega gerist við svona fréttamennsku. Hvers vegna er ekki bara hægt að láta vinnustaðar og saumaklúbbaslúðrið um nafnbirtingar og að “velta” sér upp úr svona málum, þarf virkilega að gera það með heilsíðum á síðdegisblaði?

Hvað er að?