Þessi grein birtist á visir.is. Vill eftirlit með forsetakosningunum
“Ég læt ekki bjóða mér aftur að framboð mitt verði skotið niður úr launsátri,” segir Ástþór Magnússon, forsvarsmaður Friðar 2000 og forsetaframbjóðandi. Hann hefur sent Öryggis- og eftirlitsstofnun Evrópu, OSCE, formlega beiðni um að þeir fylgist með gangi og framvindu kosninganna sem framundan eru.

“Fjölmiðlar hérlendis hafa gert framboðum mínum þau skil að ég tel ríka ástæðu til að farið verði rækilega í saumana á því. Þar á ég fyrst og fremst við Morgunblaðið sem sá ekki einu sinni ástæðu til að senda fréttamann þegar ég tilkynnti mitt framboð en tekur fleiri síður undir Ólaf Ragnar þegar hann tilkynnir sitt framboð. Mér telst til að skrif Moggans um Ólaf undanfarið séu fimmtán sinnum umfangsmeiri en um mig. Hins vegar setur Morgunblaðið engar skorður við þann fjölda níðskrifa sem birst hefur um framboð mitt á skoðanasíðum blaðsins. Ennfremur verður áhugavert að fylgjast með Kastljósþætti ríkissjónvarpsins í kvöld og sjá hvort Ólafur Ragnar fær þar sams konar meðhöndlun og ég fékk.”

Ástþór hefur verið í sambandi við menn hjá OSCE og þeir óskuðu eftir gögnum frá honum í framhaldinu. Ástþór efast ekki um að þar taki menn ósk hans alvarlega.



Ok er maður inn eitthvað klikkaður. Auðvitað er fjallað meira um Ólaf Ragnar, hann er nú einu sinni forsetinn okkar og vann með þó nokkum yfirburðasigri 1996. Er einhver sem tekur framboð Ástþórs alvarlega, vill virkilega einhver sjá hann sem næsta forseta. Afhverju vill hann láta fylgjast með famvindum kosninga? Það er ekki eins og Ólafur sendi herlið inn á heimili okkar og hótar að drepa okkur ef við kjósum hann ekki. Ekki verða menn á kjörstöðum til að gá hvort fólk sé nú ekki örugglega að krossa við Ólaf. Þetta finnst mér heimskulegt af Ástþóri. Ég get ekki lýst nægilega vel hversu illa mér er við þennan mann. Hann minnir svolítið á Leoncie, heldur að allir séu á móti sér og séu að reyna að gera honum illt. Afhverju býður hann sig ekki fram til þings, hann getur gert meira þar heldur en ef hann er forseti. Ekki myndi ég vilja sjá hann sem forseta þessa lands, þá myndi ég flytja héðan fyrir fullt og allt.