Lög og regla?

Það kannast flestir við þessi orð úr upphafi þekkts dægurlagatexta frá níunda áratug síðustu aldar en hvaða svar er til við þessari spurningu? Jú, lög og regla eru til þess að vernda þegna þjóðfélagsins, segja þeim hvað má og hvað má ekki gera, lög eru semsagt sett til að vernda fólk gegn lögbrjótum.

En hvað getur samfélagið gert þegar lögin búa til fleiri glæpi en þau hindra?

Allt í kringum okkur í heiminum eru yfirvöld að átta sig á því að fíkniefnastríðið er tapað stríð, enda er stríð aldrei rétta lausnin! Þetta stríð löggjafarvaldsins hefur getið af sér undirheimahagkerfi þar sem aðaldrifkrafturinn er sala ólöglegra vímuefna og “lögum” þessara undirheima er framfylgt af harðsvíruðum mönnum sem víla ekki fyrir sér að beita hrottafengnum aðferðum til að innheimta skuldir sem þeir verst settu hafa komið sér í eða neyða þá til að ræna banka upp í skuldirnar, eins og nýleg dæmi vitna til um.

Það þýðir ekki að loka augunum fyrir ástandinu og jesúsa sig svo í bak og fyrir þegar eitthvað þessu líkt dúkkar upp í blöðunum, þessi heimur er blákaldur veruleiki fyrir alltof marga og það er kominn tími á að endurskoða þær aðferðir sem við höfum til að taka á þessum vandamálum. Fíkn er nefnilega ekki glæpur!

Samt eru þeir sem neyta sumra vímuefna glæpamenn. Í nýlegri blaðagrein kom fram að 90% af þeim sem neyta vímuefna eru “venjulegt” fólk sem lifir sínu lífi þrátt fyrir að nota vímuefni stöku sinnum en er um leið gert að glæpamönnum. En það eru og verða alltaf til einstaklingar sem ráða ekki við sína fíkn og það eru þeir sem verða verst úti í núverandi löggjafarumhverfi.

Í staðinn fyrir að hjálpa þeim af alvöru er þeim hent í fangelsi þar sem þeir læra að verða harðkjarna glæpamenn og kosta samfélagið enn meiri peninga en þyrfti að eyða ef þeir fengju viðeigandi hjálp í heilbrigðiskerfinu.

Með lögleiðingu vímuefna væri stoðunum kippt undan þessu undirheimasamfélagi, sem þrífst og blómstrar sem aldrei fyrr í skjóli núverandi stefnu stjórnvalda í vímuefnamálum. Af hverju lítum við ekki til þeirra þjóða sem slakað hafa á lögum og reglum varðandi einkaneyslu t.d. kannabisefna?
Þar eru menn að átta sig á því að neytendurnir eru ekki vandamálið, heldur seljendur og innflytjendur, þeir sem ráða í undirheimunum.
Því eins og Jimmy Carter, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna benti á: Refsing fyrir neyslu vímuefna ætti ekki að valda meiri skaða en notkun sjálfs efnisins.

Í flestum tilvikum er þessu öfugt farið hér á landi.Lögreglan eyðir tíma orku og fjármunum í að eltast við smáneytendur þegar eini glæpurinn sem þeir hafa framið er eigin neysla; glæpur án fórnarlambs.

Fíkn er heilbrigðis og félags vandi, ekki lögreglumál.