Kæru félagar, vinir og aðrir

Gott væri að áframsenda einhvern svohljóðandi textaá sem flesta með hvatningu um að kjósa á laugardag. Þetta er ágæt samantekt.

Nú líður að kosningunni um flugvallarmálið. Síðustu skoðanakannanir gefa til kynna að afar mjótt sé á mununum og því ríður mikið á að allir andstæðingar flugvallarins fari á kjörstað og kjósi. Enda þótt kosningin verði e.t.v. ekki bindandi má samt vera ljóst að stjórnmálamenn munu trauðla ganga beint gegn niðurstöðunni.

Því vil ég hvetja þig til þess að kjósa og jafnframt að skora á alla vini, kunningja og skyldmenni til þess að gera slíkt hið sama. Við höfum nú einstakt tækifæri til þess að losa borgina okkar úr viðjum flugvallarins, þó það kunni að taka 15 ár þar til sá draumur verður að veruleika.

Röksemdir málsins eru einfaldar. Flugvöllurinn verður að víkja vegna þess að við borgarbúarnir þurfum á landinu að halda undir annað þarflegra, allt borgarskipulag er á skjön vegna hans, borgin þenst upp um allar heiðar með tilheyrandi óhagræði, slysahættan af vellinum er of mikil, hávaðamengunin er yfir mörkum hjá 20.000 manns á dag, það er lýti að vellinum og framtíð miðbæjarins kann að velta á því að hann fari. Þarna í Vatnsmýrinni er einfaldlega besta og dýrmætasta byggingarland á Íslandi.

Röksemdir flugvallarvina hafa hins vegar reynst léttvægar.
Fullyrðingar þeirra um að valið standi á milli Reykjavíkur og Keflavíkur standast ekki á sama tíma og flugmálstjóri er sjálfur að skipuleggja flugvöll í Hvassahrauni og hagsmunaaðilarnir hafa játað að flugvöllur á Bessastaðanesi yrði miklu betri heldur en Vatnsmýrarvöllurinn. Rök þeirra um að landsbyggðin verði að hafa flugvöll í borginni eru lítils virði ef annar völlur á höfuðborgarsvæðinu kemur í stað þess gamla. Rök þeirra um að ferðaiðnaðurinn myndi ekki lifa af flutning vallarins hafa verið skotin niður af menntuðum ferðamálasérfræðingum. Rök þeirra um að góðan tíma þurfi að taka til þess að undirbúa flutning innanlandsflugsins eru einskis virði í ljósi þess að þeir fá a.m.k. 15 ár til þess. Rök þeirra um að sjúkraflugið verði að hafa völl í Vatnsmýri reyndust innantóm þegar Brynjólfur Mogensen , sviðsstjóri slysa- og bráðaþjónustusviðs Landspítalans, kvað upp úr um það, að nálægð innanlandsflugvallar við sjúkrahús væri vissulega æskileg en
ekki lífsnauðsynleg.

Þegar við bætist þvergirðingurinn í samgönguráðherra er varla spurning hvað á að kjósa…

Um tilhögun kosninganna má fræðast á http://www.flugvollur.is/

Kær kveðja

Egill Helgason

ps. bendi líka á skrif um málið á vefnum hjá mér http://www.strik.is