Mig langar til að koma mínum skoðnunum á framfæri um þetta mál og heyra ykkar skoðanir, því þetta er mál sem snertir alla sem búa í höfuðborginni og ættu sem flestir að hafa skoðun á þessu.

Hugmyndin um færslu Hringbrautar niður fyrir Tannlæknagarða hefur lengi verið á borðinu og nú er svo komið að menn vilja fara að koma þessu í verk. Hugmyndin er sú að færa brautina frá gatnamótum Njarðargötu og Hringbrautar þannig að þar komi hringtorg og austan gatnamótanna verði Hringbrautin sex akreinar á stuttum kafla og stórt ummferðarmannvirki rýs á mótum Snorrabrautar og Hringbrautar sem meðal annars á að innihalda ljós eða hringtorg.
Þessar hugmyndir eiga að auðvelda aðkomu að svæði Landsspítalans og aðkomu að miðbænum, og stytta þann tíma sem vanalega tekur að keyra þarna í gegn. Landsspítalinn er gríðarlega stór vinnustaður og skapast oft mikil örtröð þarna í kringum 8 á morgnana og 4 á daginn.

Mér persónulega finnst þessar framkvæmdir alveg út í hróa hött. Þarna eru menn að skipuleggja enn eina hraðbrautina með mörgum akreinum sem ómögulegt verður að komast yfir nema á einum til tveimur göngubrúm, sem mér finnst aldrei almennilega þjóna sínu verki þar sem ég held að flestum, eins og mér, finnist þær alveg einstaklega fráhrindandi kostur. Að ganga yfir 6-8 akreina götu í 5 metra hæð og kannski 20 metrum á sek. og ískulda er ekki boðlegur kostur. Þessi braut eins og hún er skipulöggð myndi alveg drepa það að nokkrum tíma verði hægt að ganga um þetta svæði.
Menn eru að stefna á að klúðra þessu svipað og gert var í Kópavogi. Það dettur fáum heilvita mönnum í hug að ganga frá Elko í Smáranum og yfir í Smáralind. Til þess þarf að fara yfir gríðarstór gatnamót, ganga dágóðan spöl á alveg opnu svæði þannig að vindar eiga auðvelt með að bíta fólk í kinnarnar. Á þetta svæði fer ekki nokkur maður nema að eiga bíl, og svæðið var skipulagt í kringum það að fólk kæmi á einkabílnum, með gríðarstór bílastæði allt í kring. Þetta svæði finnst mér ótrúlega fráhrindandi því það er byggt svo strjált, stórar húsaeiningar eru settar niður og bílastæði allt í kring. Þarna er ekkert hugsað um gangandi vegfarendur enda sjást þeir varla.

Þetta vil ég alls ekki sjást yfirfærast á miðborgina og framtíðarbyggð í Vatnsmýrinni. Þar höfum við stórt og mikið land í hjarta borgarinnar(sem n.b. ætti alls ekki að vera notað undir flugvöll!! Sem betur fer er hann ekki inní framtíðarskipulagi) þar sem hægt er að skapa góða tengingu við þétta byggð Þingholtanna og skapa alvöru borgarumhverfi með þéttri byggð og möguleikum til þess að ganga á milli staða. Með því að færa hringbrautina er verið að gera hana að hraðbraut sem enginn kemst yfir. Auk þess sem þetta mun ekki hafa neinar umferðarbætur í för með sér því gert er ráð fyrir fleiri umferðarljósum á svæðinu heldur en eru þar nú, og það skapar bara fleiri flöskuhálsa. Er virkilega svona mikilvægt að komast svona rosalega fljótt á milli staða? Við viljum búa í borg, er það ekki? En inní borgum getur maður ekki búist við því að geta keyrt á 80 km/h og þurfa aldrei að stoppa á ljósum!

Það eru hins vegar uppi hugmyndir sem verið er að berjast fyrir núna sem eiga minn stuðning allann. Það er að hafa Hringbrautina nokkurn veginn eins og hún er en breyta henni í breiðgötu, þ.e. svipaða og Lækjargötu, gata sem er með þjónustu og verslun og íbúabyggð, blandaða byggð, og mannvænt umhverfi þar sem hægt er að ganga um. Þannig umhverfi, sem í raun er alveg mögulegt að byggja upp í hinum ýmsu úthverfum borgarinnar, draga úr þörfum einkabílsins ef þjónusta er í göngufæri við íbúa. Ef það gerist er loksins kominn grundvöllur fyrir almennilegum almenningssamgöngum, eins og tíðkast í borgum erlendis.
Með Hringbrautina þannig og þétta byggð í Vatnsmýrinni væri hægt að skapa skemmtilegt svæði á mótum Hringbrautar, Njarðargötu og Sóleyjargötu, sem væru tengingar fyrir sinn hvern bæjarhluta.

Það sem er rauði þráðurinn í þessu er að ráðamenn séu ekki að skipuleggja byggð í kringum umferðina, laga umferðina að umhverfinu, þegar að sjálfsögðu þeir ættu að vera að laga umferðina að umhverfinu. Ég bý í vesturbænum og hef gert nánast alla mína tíð, og ég vil búa í borg. Reykjavík eins og hún er í dag er varla borg heldur risastórt úthverfi. Ef menn halda áfram með hugmyndina um Hringbrautina þá breytum við framtíðar Vatnsmýrinni strax í úthverfi, sem er hræðilegt.

Hver er ykkar skoðun? Er einkabíllinn það mikilvægur að mannlífi skal fórnað fyrir hann? Er hann það mikilvægur að við viljum skipuleggja byggðina okkar í kringum hann??