Netið og farsímar...(Röfl) Hvers vegna í ósköpunum kostar 10 krónur að senda eitt sms úr símanum sínum? Eða jafn mikið og heillar mínútu símtal í ódýrasta taxta. Nú veit ég ekki hvernig sms virkar tæknilega, en mig grunar að það sé lítill munur hvernig símkerfið komi sms skilaboðum á milli síma eins og hljóði. Það tekur um 5 sekúndur að senda sms (óvísindalegar mælingar) sem þýðir að ég get sent 12 á mínútu, sem kostar um 120 krónur sem er meira en mínútu símtal til dýrustu landa. (Ekkert land er yfir 100kr/mín, skv. verðlista Símans og Tals). Hvers vegna er þetta svona dýrt? Það liggur við að það borgi sig að tengja tölvu við símann og nota SMS vef-gátt til að senda 10 stafa skilaboð. SMS eru mjög þægileg, einmitt vegna þess að manneskjan er nær undantekningalaust með símann á sér, það er hægt að senda henni skilaboð án þess þó að trufla. Ég lít á SMS eins og tölvupóst sem hefur kosti farsímans, þú ert 90% viss um að skilaboðin komist til skila fljótt.
Hvað er það sem er mest notað á Internetinu? Hvað er það fyrsta sem þú gerir þegar þú sest niður í vinnunni? (Þið sem vinnið við tölvur. þ.e.) Jú, þú lest tölvupóstinn þinn. Póstur frá yfirmanni þínum, kærusutu/kærasta, mömmu, vinnufélögum, Badda frænda í Ástralíu. Tölvupósturinn er líklega það sem heldur netinu gangandi. Ekki .is/com fyrirtæki, ekki auglýsingar, ekki Flash eða “streaming” efni, heldur gamli , leiðinlegi, ASCII tölvupósturinn. Tölvupóstur eru hin endanlegu “Peer to peer” samskipti löngu áður en það komst í tísku, samskipti milli tveggja einstaklinga. Það fyrsta sem þú færð þegar þú tengist netinu er tölvupóstfang, jonr@ismennt.is, fyrr ertu ekki til, þú ert ekkert áður. Stundum held ég að “gamla liðið” sé ekki alveg að átta sig á þessu. Fólk vill tala við annað fólk (DÖH). Hvers vegna haldiði að WAP hafi klikkað? Vegna þess að fólk nennir ekki að nota farsímana sína til að kaupa sér drasl eða millifæra milli bankareikninga, það vill tala við annað fólk! Nóg um þetta í bili…
J.