Hernaðarleyndarmál Dominos Eins og sumir vita eflaust er núna megavika í gagni hjá Dominos. Það er að sjálfsögðu ekkert nema gott mál að fá ódýrar pizzur og ég verð að viðurkenna að Dominos freista manns gjarnan enda er eitthvað við pizzurnar þeirra sem maður fær ekki annar staðar.
Mig langar hins vegar að benda ykkur á hvað það er sem býr að baki þegar þið verslið við þetta fyrirtæki því þótt flestum sé svosem sama hvernig fyrirtækið og láta það ekkert stoppa sig í að kaupa pizzur þá er í það minnsta aldrei verra að vita af furðulegum, já eða einfaldlega barnalegum starfsháttum.

Nú, til að byrja með þá er hægt að tala endalaust um það hvað þeir níðast á starfsfólkinu sínu. Eflaust eru einhverjir sáttir þarna en ég hef í það minnst ekki heyrt þeirra hlið eða álit á fyrirtækinu og ég geri fastlega ráð fyrir því að þetta fólk, ef það er þá til, sé allt í ábyrgðarstöðum innan fyrirtækisins. En, já, hvað um það. Dominos fer semsé illa með starfsmenn sína. Strax og starfsmenn eru ráðnir í vinnu eru þeir til að mynda látnir skrifa undir ráðningarsamning þar sem þeir afsala sér ýmsum réttindum sínum. Það eru t.d. réttindi sem sjá til þess að þú fáir alltaf borgað fyrir lágmark fjóra tíma þótt þú sért að vinna skemur. Í staðin eru þetta tveir tímar og ég veit til þess að þegar fólk hefur fengið að fara heim áður en tveir tímar eru liðnir þá sé það látið skrifa undir samning þar sem það afsalar sér líka þessum rétti að fá tvo tíma borgaða, ef ekki er vilji til að skrifa undir samninginn geturðu átt von á að þurfa að vera í vinnunni þangað til þessir tveir tímar séu liðnir svo Dominos sé nú örugglega ekki að senda fólk heim á launum. Svo er nú ekki eins og þessi laun séu sérlega há. Þetta eru að sjálfsögðu laun á lágmarkstaxta, eins lágum og hann má mögulega vera samkvæmt lögum svo ég best viti og ef einhverju munar þá eru það bara einhverjar krónur.

Þrátt fyrir þessi lágu laun er sífellt verið að svíkja starfsfólk um þær nokkru krónur sem það á rétt á. Ef starfsmaður er t.d. kallaður út án fyrirvara (s.s. ekki samkvæmt fyrirframákveðnu vaktaplani) á hann, samkvæmt samningum, að fá fjóra tíma borgaða. (hér á ráðningarsamningurinn ekki við því þótt búið sé að afsala sér réttinum á fjórum tímum þá á það ekki við þegar um útkall er að ræða). Það þarf að ganga á eftir þessum auka tímum vilji maður fá þá borgaða. Dominos borgar þá ekki nema starfsmenn minni þá á það. Ef starfsmaður er síðan að vinna lengur en til miðnættis, eða eftir að strætó hættir að ganga á hann rétt á ferðapeningum til að komast heim. Þessu er fólk aftur búið að afsala sér með ráðningarsamningnum og í staðin segist Dominos skipuleggja ferðir heim fyrir fólk og borga þeim sem skutla öðrum bensínpening fyrir það. Eins og með útkallstímana færðu þetta ekki borgað nema minna á það og ganga á eftir því.

Nú, síðan er það framkoman við kúnnann. Auðvitað eru starfsmenn ósköp ljúfir og kurteisir á yfirborðinu, flestir þeirra í það minnsta, en eru þeir að segja þér satt? Vinkona mín vinnur í þjónustuverinu þeirra og var að vinna þar á sunnudaginn, degi áður en megavikan byrjar. Hún mátti alls ekki segja fólki að það væri megavika daginn eftir og ef fólk spurði átti hún að segja nei! Hún átti að ljúga því að kúnnanum að það væri ekki megavika daginn eftir. Einnig átti hún að segja þeim sem spyrðu hvenær megavikan yrði að hún vissi það ekki og þar fram eftir götunum. Hún var næstum rekin á staðnum um daginn fyrir að segja blaðamanni sem hringdi og spurði um biðtímann hvað biðtíminn væri langur. Átti hún þá að ljúga að honum líka? Á hún þá kannski helst ekki að segja venjulegum kúnna hvað biðtíminn sé langur því það gætu verið samkeppnisaðilar eða fréttafólk að njósna!

Og hver er tilgangurinn með því að segja ekki fólki sannleikann? Jú, samkeppnisaðilar mega ekki vita af því hvað er í gangi hjá Dominos. Þannig er Megavikum haldið leyndum eins og hernaðarleyndarmálum til þess að samkeppnisaðilinn frétti það ekki og sé ekki viðbúinn því að það verði lítið að gera hjá sér á meðan. Árshátíðir og starfsmannabíóferðir og frí eru einnig algjört leyndarmál fram á síðustu stundu þannig að hinir pizzastaðirnir séu ekki viðbúnir því að það verðir meira að gera hjá sér og ráði ekki við törnina.

Ég veit ekki hvort að þeir hafa pælt í því að þetta fólk sem það er að ljúga að séu hugsanlega viðskiptavinir sem komi til með að verða mjög ósáttir við það að vera hafðir að fíflum. Það þá allavega vera kúnnar/kostnaður sem þeir eru tilbúnir til að fórna til þess eins að ná að láta samkeppnisaðila sína tapa sem allra mestu. Ég veit að ég yrði allavega ekkert sérstaklega sátt ef ég hefði pantað pizzu á sunnudaginn og verið sagt að megavikan væri ekki á næstunni og kæmist svo að því daginn eftir að það hefði allt saman verið einhver lygi.

Eru þetta gáfulegir viðskiptahættir? Er þetta ekki bara barnalegt?
Í guðanna bænum… Þetta eru bara pizzur!!!

Sem betur fer eru fleiri staðir sem mér finnst gera góðar og jafnvel betri pizzur þannig að ég er langt frá því að vera háð því að versla eingöngu við þessa vitleysingja.
Þú ert ekki orðin drukkin ef þú getur legið á gólfinu án þess að halda þér í ;)