Það hefur verið hjákátlegt og aumkunarvert að fylgjast með formælendum ríkisstjórnarinnar reyna að finna upp nýja réttlætingu á Íraksinnrásinni, nú þegar viðurkennt er að engin gereyðingarvopn er þar að finna. Nú heitir það svo að koma hafi þurft grimmum einræðisherra frá völdum. Jafnvel þótt litið sé framhjá kringumstæðum innrásarinnar og því hvernig hún var á borð borin fyrir heimsbyggðina heldur þessi réttlæting alls ekki vatni. Saddam var vondur, ekki verður því á móti mælt. En af hverju var hann vondur? Jú, því hann drap fólk. Með því að fjarlægja hann var sem sagt hægt að bjarga lífi margs saklauss fólks sem hann hefði ella saxað niður. Það er samt lélegt bókhald þar sem einungis er reiknað út frá kredit, en debet sleppt. Formælendur ríkisstjórnarinnar sleppa því alveg að tala um debethlið reikningsins, þ.e. allt fólkið sem var drepið í þessu stríði og er enn verið að drepa vegna þess óstöðugleika og ófriðar sem innrásin leiddi af sér og ekki sér enn fyrir endann á. Sá fjöldi skiptir þúsundum ef ekki tugum þúsunda, sem debetreikingurinn hljóðar upp á eftir aðeins rúma 10 mánuði. Og hver er vondur og hver er góður ef menn eru metnir af verkum sínum og afleiðingum þeirra? Eru Halldór Ásgrímsson, Davíð Oddsson, Einar K. Guðfinnsson o.fl. góðir menn ef þeir styðja það opinberlega að þúsundir saklausra séu drepin? Eða eru þeir kannski vondir? Eru þeir eitthvað betri menn en Saddam Hussein, og þá hvernig?
Halldór Ásgrímsson lét hafa það eftir sér á dögunum að það hafi ekki verið hægt að sætta sig við það hvernig Saddam vanvirti sameinuðu þjóðirnar í sífellu. Þá rifjast upp drengurinn Ali sem missti báðar hendurnar í stríðinu og Halldór lét sér sæma að míga utan í á sínum tíma. Mér þætti gaman að heyra Halldór segja þetta við drenginn Ali, og aðstandendur þeirra barna sem voru drepin eða örkumluð fyrir lífstíð með velþóknun hans.