Í dag voru tvær aðsendar greinar í Morgunblaðinu sem vöktu athygli mína. Annarsvegar var það grein Stefáns Einars Stefánssonar, stud. theol. um ummæli Magnúsar Þórs Hafsteinssonar á vefsvæðinu málefni.com.

Hin greinin var eftir tvær ungar konur sem eru í forsvari fyrir samtök sem standa árlega fyrir V-deginum svokallaða. Markmið samtakanna er að binda endi á ofbeldi gegn konum um allan heim og munu samtökin starfa þar til því markmiði hefur verið náð, samkvæmt heimsíðu samtakanna vdagur.is

Greininni í Mogganum í dag var beint að Hard Rock í Kringlunni. Þannig var að einn starfsmaður þar hafði verið dæmdur sekur fyrir hérðasdómi fyrir nauðgun á tveimur stúlkum. Athugasemdir V-samtakanna beindust að því hversvegna maðurinn hefði haldið áfram að vinna hjá Hard Rock en ekki verið sagt upp um leið og dómurinn féll.

Mér finnst þessi grein frá V-samtökunum fáránleg og það er engum greiði gerður með því skrifa hana. Fyrirtækjum er í sjálfsvald sett hvort þau hafa dæmda sakamenn í starfi. Sú spurning sem mér datt hinsvegar strax í hug var hvort V-samtökin eru mótfallin því yfirhöfuð að fyrirtæki ráði til sín dæmda sakamenn, hvort heldur sem er kynferðisafbrotamenn eða einhverja aðra.

Það er ekki hlutverk V-samtakanna að elta uppi afbrotamenn og benda á með greinum í Morgunblaðinu hvar þeir starfa og finnst mér samtökin vera kominn á annsi grátt svæði með þessum skrifum. Í dag hefur Hard Rock beðið nokkra álitshnekki og verður fróðlegt að fylgjast með hvort veitingastaðurinn muni ekki svara fyrir þetta.

Með fyrirfram þökk,
Bjarni.