Stúlkur undir lögaldri sýndu undirföt... “Lögregla var kölluð að skemmtistaðnum Club Opus í Hafnarstræti á laugardagskvöld þar sem borist hafði ábending um að stúlkur undir lögaldri sýndu undirföt í ”Playboy-partíi“ þar sem hafði verið auglýst ”sexý kanínusýning“ og ”fullt hús af flottum Playboy-kanínum“. Tvær stúlkur, sem eru fæddar árið 1987 og verða því 17 ára á árinu, sýndu undirföt en reyndust hafa skriflegt leyfi frá foreldrum og hafði lögregla því ekki frekari afskipti af uppákomunni.
Brynjar Már Valdimarsson, skemmtanastjóri Club Opus, segir að fimm stelpur hafi sýnt undirföt uppi á sviði, allar nema þessar tvær sem ekki hafi verið orðnar átján ára, þær hafi haft leyfi frá foreldrum. ”Þetta var undirfatasýning, þær voru í g-streng og brjóstahöldurum,“ segir Brynjar Már.

Hann segir að sýningin hafi tekið um tíu mínútur og dyraverðir hafi staðið fyrir framan sviðið til að passa að enginn kæmi nálægt stúlkunum. Þegar sýningunni hafi verið lokið hafi þær sem ekki voru orðnar tvítugar farið út, en 20 ára aldurstakmark var inn á staðinn.

”Við höfum haft tískusýningar frá alls konar búðum. Það var ekkert kynferðislegt við þetta, þetta var bara undirfatasýning. Við höfum haft undirfatasýningu tvisvar eða þrisvar áður,“ segir Brynjar, sem reiknar með að hafa svona ”Playboy-partí“ á veitingastaðnum mánaðarlega framvegis. ” (mbl.is 28.01.2004)

Svona hljómar grein í mogganum í dag. Er þetta næsta skrefið? erum við að fara sjá 16 ára börn strippa fyrir fulla slefandi karla, bara afþví að einhverjir foreldrar hafa ekki vit á að banna börnunum sínum þetta.
Hvað með framkvæmdarstjóra staðsins er hann algjörlega blindur á siðferð? Hann hljómar ekki fyrir að sjá neitt rangt að þessu og að lokum hvað með undirfata verslunirnar. Vilja eigendur þeirra virkilega brjóta á barnalögum til að selja undirfötin sín. Er ekki tími á að einhver segi nei við svona viðbjóði og við verndum börnin okkar þannig að þau viti að við berum hag þeirra fyrir brjósti? Hvernig er það, ef börn eru að koma fram í undirfötum á playboy-kvöldum erum við þá ekki komin út í barnaklám? hvað finnst ykkur? Er virkilega ekki hægt að stoppa svona, ef foreldrar leyfa þetta? Well mér finnst það sjúkt.