Ég er 26 ára. Ágætlega menntaður í góðu starfi. Nota kosningaréttinn minn, fylgist með fréttum, hef áhuga á stjórnmálum og málefnum líðandi stundar. Tel mig vera ágætlega upplýstann og frjálslegan dreng. Aldrei hef ég hneykslast á fréttaflutningi, fyrr en nú.

Í DV miðvikudaginn 14. janúar er grein um bankaræningjann sem rændi Sparisjóð Kópavogs og ég get ekki annað en sagt að þetta er einn sá óábyrgasti fréttaflutningur sem ég hef séð á minnu stuttu ævi. Ég mun taka út nokkrar línu úr þessari grein til að sanna mál mitt á. Ég mun nota gæsalappir til að aðgreina þær.

Í þessari grein er talað um að drengurinn hafi ekki rænt bankann fyrir sjálfan sig. “Handrukkarinn hafi skipaði honum að ræna bankanum; hreinlega fjarstýrt honum.” Eigum við bara að sætta okkur við það að sjálfsábyrgð ræningja sé tekin í burtu? Þetta sé ekki honum að kenna? Það finnst mér alveg óafsakanlegt!! Fólk hefur vald á yfir sér og á alltaf að bera ábyrgð á gjörðum sínum!!!

“Og til þess þurfti heilt bankarán.” Þessi setning kemur í lok umfjöllunar um að drengurinn hefði komist í meðferð og sé nú að líta björtum augum á lífið og að hann liti á að bankaránið hefði bjargað lífi hans. Mér finnst nú ósköp hæpið að inngönguskilyrði í meðferð sé að menn hafi þurft að fremja í það minnsta bankarán.

Minnst er á að drengurinn hafi “endurgreitt bankanum og tryggingafélaginu og því séu allir búnir að fá sitt”. Er ekki aðeins verið að gleyma einum hlut hérna í þessu öllu? Fólkinu sem var að afgreiða í bankanum þennan morgun? Eru þau búin að fá sitt? Inn ræðst ungur drengur vopnaður öskrandi um peninga. Þetta eru sálræn ör á afgreiðslufólkið sem ekkert er minnst á í fjölmiðlum. Ég get vel ímyndað mér að þetta fólk eigi erfitt með að halda aftur til vinnu eftir svona atburð.

“En hann átti ekki önnur ráð. Og í stöðunni má segja að hann hafi gert allt rétt.” Eru menn að tapa sér í svona skrifum? Er það talið að gera rétt að brjóta landslögin og stofna lífi og heilsu starfsfólks fyrirtækja í hættu. Þetta finnst mér vera svo óábyrgt að ég hreinlega missti andlitið þegar ég las þetta. Ég hefði nú haldið að réttasti hluturinn í svona máli væri að tala við lögregluna. Það var einmitt viðtal á rás 2 núna seinnipartinn í dag, 14. janúar, við lögreglumann þar sem hann einmitt hvatti fórnarlömb handrukkara til að hafa samband strax við lögregluna svo þeir gætu hjálpað þeim sem lenda í þessum mönnum.

En það sem mér finnst nú vera það sem slær allt út í þessari grein. “Hann bjargaði lífi sínu með því að ræna banka. Og líklega ekki sá fyrsti sem það gerir.” Þetta eru svo ótrúleg skrif að ég veit varla hvað ég á að segja. Er blaðamaðurinn að reyna að réttlæta aðgerðir drengsins? Eða er hann að reyna að ýta fleirum í svipaðri aðstöðu út í það að ræna banka þar sem hann heldur því fram að það geti allir fengið sitt úr úr þessu?

Þessi drengur RÆNDI banka. Hann BRAUT lög. Starfsmenn bankans hafa líklegast hræðst um líf sitt. Eru þetta hlutir sem eru lítilfjörlegir í augum fólks? Svo virðist vera ef mark á að taka af þeim sem skrifaði umtalaða grein.

Nú veit ég að stefnubreyting hefur orðið á DV eftir að þeir fóru næstum því á hausinn. Þeir halda því fram að þeir séu beittari og eitthvað þar fram eftir götunum. En er samt ekki hægt að ætlast til þeir beiti örlítilli fagmennsku? Þegar blaðamaður fer að réttlæta gerðir bankaræningja, halda því fram að allir fá sitt (gleymandi fólkinu sem raunverulega lendir í ræningjanum, þ.e. afgreiðslufólkinu) og liggur við að ýta öðrum út í svipaðar aðgerðir. Að mínu mati er þetta óábyrgasti fréttaflutningur sem ég hef á ævi minni orðið vitni að. Það mætti halda að blaðamaðurinn þekkti ræningjann persónulega og væri að reyna að fegra drenginn eitthvað?!?

Ekki tek ég mikið mark á DV sem fjölmiðli eftir þetta. Það litla álit sem ég hafði á þessu blessaði blaði fauk út um gluggann þegar ég las þessa grein.