Í <a href="http://www.visir.is/ifx/?MIval=frettir&nr=85685&v=2“>frétt</a> á <a href=”http://www.visir.is“>Vísi</a> í dag heyrast í fyrsta sinn svör frá Birni Bjarnasyni menntamálaráðherra varðandi höfundarréttargjöldin alræmdu.

Í fréttinni telur ráðherran upp nokkur atriði og svarar þeim og er hægt að segja að hans sjónarmið varðandi þetta mál eru eins ólík sjónarmiðum mótmælenda eins og hægt er. Ég ætla að grípa hérna nokkur atriði úr greininni, en ég mæli með að þið lesið hana alla, og reyna að benda á munin á skoðunum þessara tveggja hópa og fáránleikann í hans rökum að mínu mati.

Björn segir:

…um það að gjöldin séu kölluð skattur.
,,Mótmælin byggjast á þeim misskilningi, að um skatt sé að ræða. Svo er ekki, heldur er verið að framfylgja lögum um höfundarétt, sem gera ráð fyrir umbun til höfunda, sem leyfa afrit af eign sinni til einkanota. Lögin mæla fyrir um að reglugerðin skuli sett og þau voru samþykkt einum rómi á alþingi 8. maí árið 2000,”

Umbun til höfunda, gott og vel. En af hverju er þessi umbun greidd af óskrifuðum geisladiskum (hér eftir CD-R til styttingar) en ekki bara af seldri vöru? Eru til dæmi um það t.d. að skósmiður fái umbun fyrir vinnu sína greidda af salernispappír? Með smá “skapandi” aðferðum er hægt að láta pappírinn sinna sama hlutverki og skór.

…um mótmæli tölvufólks.
,,Mér finnst margt af því, sem sagt hefur verið byggt á hæpnum forsendum. Kemur mér á óvart, að frá tölvu- og hugbúnaðarmönnum komi þessi reiði í garð höfundaréttar, því að engin grein á eins mikið undir þeim rétti, auk þess hugbúnaðarmenn hafa óskað eftir og fengið mun strangari vernd um sinn rétt en höfundar almennt,“

Höfum við einhverntíman sagt það að við værum á móti höfundarrétti? Hvar í okkar rökum er hægt að greina það? Við viljum bara greiða fyrir þann höfundarrétt sem við þurfum miðað við notkun á ”hugverkum". Það er bara einfaldlega ekki nokkur glóra í því að borga fyrir hluti sem við notum ekki.


…um ásakanir um að við séum þjófar.
,,Ég hef aldrei heyrt áður, að þessi ummæli mín um smugusjómenn [sjá grein á vísi (JR)] væru orðin fleyg,“ segir Björn. ,,Menn mega ekki blanda ólíkum hlutum saman í umræðum um grundvallarmál af þessu tagi. Smugudeilan snerist ekki um lögverndaðan rétt á borð við höfundarétt, hún var um það, hvort viðurkenna ætti rétt, sem Norðmenn vildu eigna sér. Það er heimilt að afrita eign annarra til einkanota, enda komi umbun fyrir. Almennt fara þjóðir þá leið, sem hér er farin, en reglan kom fyrst í lög hér fyrir 15 árum og er nú verið að sníða hana að nýrri tækni. Ég fellst ekki á það sjónarmið, að með því að vernda höfundarétt sé verið að þjófkenna einhvern.”

Ráðherran hefur ekki sagt það berum orðum að það sé verið að þjófkenna fólk, það gerði talsmaður STEF, Magnús Kjartansson eins og frægt er. En það má einnig lesa það úr svona lögum að það sé verið að þjófkenna fólk því ein af rökunum með þessum gjöldum er sú að það er verið að “bæta höfundarréttarhöfum tap vegna ólöglegrar fjölföldunar” og með því að rukka alla um það er verið að segja: “þið stelið öll, þessvegna borgið þið öll”.


…um muninn á geisladiskum og mynd- og tónböndum.
,,Ég er sammála því, sem segir í höfundaréttarlögunum um þessa þætti,“ segir Björn, ,,en hef fallist á það, að gjaldtaka á geisladiska eigi að vera lægri en á hljóðsnældur.”

Jæja, kom að því að það hrökk einhver skynsemi í höfuðið á honum. En það breytir ekki því að þessi alhliða gjaldtaka er röng og lægri gjöld gera hana ekkert réttari. Við erum samt að borga fyrir hluti sem við notum ekki.


…um yfirlýsingu Neytendasamtakanna.
,,Ég botna ekki alveg í yfirlýsingu Neytendasamtakanna í ljósi þess, að reglur um þetta hafa verið í lögum í 15 ár. Hvers vegna hafa samtökin ekki látið reyna á þetta grundvallaratriði fyrr, til dæmis með því að beina álitaefninu til umboðsmanns alþingis eða dómstóla?“

Líklega er það vegna þess að á árum áður voru hljóð- og myndbönd notuð í fátt annað en í upptöku á höfundarréttarvörðu efni, annað en með geisladiskana. Neytendasamtökin verða að vísu að svara til um sínar gjörðir (eða skort á þeim).


…um álit lögfræðings innflytjenda.
,,Með breytingu á reglugerðinni var komið til móts við sjónarmið innflytjenda,” segir Björn um þetta. ,,Ég er þess fullviss, að reglugerðin hefur lagagildi. Vilji lögfræðingurinn láta reyna á réttmæti skoðana sinna, er honum að sjálfsögðu frjálst að bera málið undir dómstóla.

Þarna er hann að reyna að benda fólki á hversu göfugur hann er að friða stóru innflytjendurna með breytingu á reglugerðinni og endar svo á þessu hrokafulla svari sem oft er sagt upp á enska tungu: “Just sue me!”.


…um mótmælin og tímasetningu þeirra.
,,Miðað við það, hver margir eru áhugasamir um málið, kemur mér á óvart, að enginn skuli hafa áttað sig á því, að það var til umræðu á alþingi vorið 2000, það er fyrir réttu ári. Þá flutti ég frumvarp til laga um breytingu á höfundalögunum og í meðferð þingsins á því frumvarpi var sú breyting gerð á því, að greiðsla fyrir eintakagerð til einkanota með starfrænum hætti kom inn í frumvarpstextann og síðan lögin

Miðað við fjölda mála sem rædd eru á alþingi þá er ekki mikið mál að missa af einu og einu máli, jafnvel svona mikilvægum málum. Einnig vakna íslendingar (ég meðtalinn) oft ekki upp fyrr en að það kemur til framkvæmda, því mörg eru lögin til sem maður veit ekki af því þau koma manni lítið við í daglegu lífi (ég man ekki hvenær ég keypti mynd- eða tónband síðast. Og svo var kannski falskt traust til alþingis að verki þarna, maður á það til að væna alþingismenn um greind og skynsemi. Ég vona að það komi ekki fyrir mig aftur.


…um mótmæli nokkurra þingmanna.
Með hliðsjón af því er ég undrandi, þegar þingmenn Frjálslynda flokksins og Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segjast vera andvígir gjaldtökunni - hvers vegna voru þeir það ekki, þegar atkvæði voru greidd um málið á alþingi?“ spyr Björn.

Lúðvík Viðurkenndi það þegar að félagi minn ræddi við hann um þetta mál á dögunum að hann ”vissi ekki mikið um þetta mál“. Sýnir bara hvernig lög eru afgreidd af alþingi, ég yrði fljótt rekinn ef ég sýndi mínu starfi svona lítinn áhuga.

…um áhrif gjaldsins á tölvuþekkingu.
,,Þessi reglugerð breytir engu um tölvuþekkingu landsmanna,” sagði Björn. ,,Lögin að baki henni byggjast á þrauthugsuðum úrræðum til að veita mönnum frelsi til að nýta eign annarra.

Jamm…þrauthugsuðum af hagsmunahópum sem ríkisstjórnin virðist vera að ganga erinda fyrir. Og hún er að leggja aukin kostnað á tölvunotkun sem hefur ekki jákvæð áhrif á tölvuþekkingu.


…um störf hans sem skósveinn Microsoft.
Þegar ég samdi við Microsoft um að íslenska Windows-stýrikerfið, bentu talsmenn fyrirtækisins mér á, að hér væri meiri hugbúnaður þess notaður með ólögmætum hætti en annars staðar í Evrópu. Hluti samningsins við Microsoft laut að því að berjast gegn þessum brotum gegn höfundarétti fyrirtækisins.

Þetta er sannkallað gullkorn. Sjaldan hef ég séð ráðamann viðurkenna svona fúslega að honum hafi verið “mútað” (ég er ekki að meina honum persónulega heldur embættinu og þjóðinni) af erlendu stórfyrirtæki til að ganga erindi þeirra hér á landi. Og MS borgaði honum og þjóðinni með stórkostlega gallaðri útgáfu af Windows98.


…um netverja.
Ég hef áhyggjur af því, ef íslenskir netverjar vilja hafa höfundarétt að engu, þá eru þeir að vega að rótum framfara í upplýsingatækninni,“ sagði Björn að lokum.

Enn og aftur, hvenær höfum við haldið því fram að við séum á móti höfundarrétti? Við erum einfaldlega á móti aðferðinni við að innheimta hann.

Jæja, þarna hafa komið fram svör við mörgum af orðum ráðherrans en án efa ekki síðustu orðin um þetta mál. Stjórnvöld hafa með þessu sýnt hversu auðvelt það er fyrir sérhagsmunahópa og lobbýista að fá þau til að vinna fyrir sig, á kostnað þjóðarinnar. Að mínu mati eru Stjórnvöld að bregðast hlutverki sínu með því að bera ekki hagsmuni meirihluta þjóðarinnar fyrir brjósti.

Segjum nei við þessum gjöldum og höldum áfram að mótmæla, þetta mun ekki gleymast og er alls ekki lokið.


J. Reykdal


p.s.

Orð ráðherrans eru tekin úr <a href=”http://www.visir.is/ifx/?MIval=frettir&nr=85685&v=2“>grein</a> sem birtist á <a href=”http://www.visir.is“>visir.is</a> þann 8. mars 2001.
Ef eigendur höfundarréttarins eru óánægðir með notkun mína á henni þá er þeim ”að sjálfsögðu frjálst að bera málið undir dómstóla."
JReykdal