Siðfræði er flókið fyrirbæri. Hún einfaldast ekki í alþjóðasamfélaginu þegar menn ræðast við milli landa daglega og fréttir berast okkur frá öllum heiminum allan sólarhringinn. Flestir eiga sér einhver princip. Sumir vilja ekki hafa samfarir við stelpur á blæðingum, aðrir vilja ekki eiga samskipti við Bandaríki Norður-Ameríku o.s.frv. Til að verða trúr sjálfum sér þyrfti maður að leggja gríðarlega vinnu í að standa við hin ýmsu princip. Þetta gerir það að verkum að hugsjónafólk verður gjarnan mjög hræsnislegt, oftast vegna fávisku.

Tökum dæmi:
Ekki fyrir alls löngu keypti móðir mín handa mér vöru sem hafði ágætis notagildi og ég var tiltölulega ánægður með. Seinna komst ég að því að þessi vara var framleidd í Ísrael. Viðbrögð mín við þessu voru þau að ég bað móður mína að kaupa ekki þessa vöru aftur.
Þetta var að sjálfsögðu vegna þess að ég tel að það ætti að halda viðskiptabanni á þjóð eins og Ísrael. Það er princip hjá mér að eiga ekki viðskipti með Ísraelskar vörur vegna þess að ég tel mannréttindi vera brotin þar, en einnig vegna þess að deilan þar er mjög áberandi. En hvernig kemur hræsnin þá inn í þessa jöfnu?
Ef við notumst við breytur og tökum aðra vöru, hugsanlega frá Rússlandi, Kína, Myanmar, Indónesíu, eða einhverjum fasistastýrðum ríkjum í Rómversku Ameríku er mjög ólíklegt að ég tæki sérstaklega eftir því. Ég nyti vörunnar til fullnustu án þess að huga að líðan fólks í framleiðslulandinu þrátt fyrir það að Rússar séu að drepa Tétsena, Kínverjar ofsæki hópa og fangelsi á sama hátt og Stalín gerði áður, ríkisstjórn Myanmar setji fólk í stofufangelsi fyrir skoðanir sínar og Indónesar hafi haldið A-Tímor í gíslingu í langan tíma.
Þetta hlýtur að gera mig að hræsnara, og ekki litlum. Ekki skánar það þegar ég fer að spá í fötin sem ég geng í. Ég get talið upp a.m.k. 5 nike-flýkur í fataskápnum mínum og við vitum jú öll hvernig framleiðsla á þeim fer fram, einmitt í ýmsum fyrrtöldum ríkjum. Svo heldur maður að maður sé að sleppa við þrælafötin ef það stendur kannski ,,made in U.S.A.” eða ,,made in Italy” eins og gjarnan er á gallabuxum. Nei, við sleppum ekki neitt. Bandaríkin er með þrælabúðir inn í miðjum stórborgum þar sem kínverjar vinna undir svipuhöggum, óttaslegnir við að verða vísað úr landi, og hvað haldið þið að Ítalir geri við alla Albönsku flóttamennina sem hafa komið þangað sjóleiðina árum saman?

Eftir að bent hefur verið á þessu atriði liggur spurningin fyrir: Er ég verri maður, af því að ég hef einhver princip, en meðalmaðurinn sem lætur sig þetta engu skipta og kaupir bara það sem honum finnst flott, gott eða hagstætt? Verður hugsjónamanneskjan vond vegna hræsninnar sem fylgir því að hafa þessar hugsjónir?

Ég á ekki svar við þessum spurningum en tel þetta vel hæft til umræðu.

Ég afsaka notkunina á útlenska orðinu princip en það er ekki til þýtt í minni ensk-íslensku orðabók og því nota ég það óbreytt. Taldi hugsjón of vítt til að það gæti notast nema í vissum tilvikum.