Þessi frétt var á mbl.is áðan.
———-
Ætla má að bættar samgöngur á hálendishluta fyrirhugaðrar Kárahnjúkavirkjunar fjölgi í heild ferðamönnum þar um slóðir en að ýmsir þeir sem gera miklar kröfur um lítt snortið land muni ekki sætta sig við virkjunarframkvæmdir og færa sig um set. Þetta kemur fram á vef Landsvirkjunar um Kárahnjúkavirkjun og er tekið úr greinargerð um ferðamál og samgöngur sem Landmótun ehf. landslagsarkitektar gerðu í tengslum við mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar tóku saman.
———–

Þetta er eitt stórkostlegasta blekkingarsjónarspil sem Landsvirkjun hefur beitt lengi. Áhugamannafélög eins og Afl fyrir Austurland og STAR hafa reynt að halda þessu fram en nú hefur þeim borist “liðsauki” með Landsvirkjun og Landmóti. En hver er blekkingin spyrjið þið kannski? Hún er þessi.

Náttúruverndarsinnar hafa margsinnis reynt að benda á fleiri leiðir en virkjanir til þess að hafa peninga út úr svæðinu og styðja við atvinnulíf á Austurlandi. Í þeirri umræðu hefur ferðamennska komið hvað eftir annað upp á borðið enda ljóst að þar liggur einn af mikilvægari vaxtarbroddum efnahagslífsins. Sumir ferðamálafræðingar hafa jafnvel gengið svo langt að segja að íslensk ferðþjónusta leggist alveg af verði virkjað á svæðinu. Með því að benda á þá augljósu staðreynd að með bættum samgöngum aukist ferðamannastrauminn telur landsvirkjun sig vera búna að ná yfirhöndinni í umræðunni. Forsvarsmenn hennar reyna að hampa því að fólk muni keyra á “þeirra vegum” til þess að skoða svæðið. Þetta er náttúrulega svo mikið kjaftæði vegna þess að það er vel hægt að byggja vegi án þess að byggja virkjun og byggja upp ferðaþjónustu án þess að byggja virkjun. Það er verið að reyna að slá ryki í augun á fólki til þess að réttlæta þetta umhverfisslys. Menn er bara svo uppteknir af þessari virkjun að þeir telja sig verða tengja hana við allar leiðir sem eru færar. Það er merkilegt til þess að hugsa að á Djúpavogi, þar sem virkjunar/stóriðjuumræða hefur aldrei náð neinni fótfestu hefur íbúum nú fjölgað um 6%, eingöngu vegna þess að þar töpuðu menn sér ekki í þessum gamaldags stóriðjuleik og einbeittu sér að öðrum leiðum til að styrkja byggðina. Maður getur annað en spurt sig af hverju Landsvirkjun, ríkisstjórnin með Halldór Ásgrímsson í fararbroddi og Afl fyrir Austurland er nú búið að eyða nærri 4 árum í “baráttu” fyrir stóriðju á meðan hvert einasta byggðarlag hefur tapað 6-10% íbúanna á hverju ári. Ætli Halldór sér að reisa sér minnisvarða í þessari virkjun er orðið alveg ljóst að undirstöður þess veikjast með hverju árinu sem líður án þess að nokkuð gerist. Fólk fær einfaldlega nóg af því að bíða en hafi það eitthvað annað fyrir stafni eru meiri líkur á því að það haldist. Djúpavogkeisið sannar það. Ríkið og landsvirkjun ætti þess vegna bara að blása allt heila klabbið af og fara að gera eitthvað raunhæft. Austfirðingar eiga það skilið.