Í dag, sunnudaginn 4. janúar, birtist ein frétt í Fréttablaðinu þar sem haft er eftir Jóni Ásgeiri forstjóra Baugs, að okkar forsætisráðherra sé að stunda atvinnuróg. Þar tjáir hann sig um orð forsætisráðherra í þættinum Kryddsíld og segist vera langþreyttur á árásum forsætisráðherra. Það virðist sem Jón ætli að feta í fótspor nafna síns sem áður var kenndur við Norðurljós, að leita réttar síns á ummælum forsætisráðherra. Satt er það að Davíð hefur verið að tjá skoðun sína á málum tengdum fyrrnefndum aðilum. Margir hafa deilt um það og ágæti þess. Aðrir hafa sett fram þá spurningu, hvort forsætisráðherra megi ganga svona langt. Það fer ekki milli mála að þessir menn sem forsætisráðherra hefur talað um eru umdeildir. Skattamál Jóns Ólafssonar eru í rannsókn og núna er eignarhald Baugsfeðga á fjölmiðlum hér til skoðunar.

Eins og áður hefur komið fram hefur sú spurning vaknað í umræðunni, hvort forsætisráðherra sé leyft að tjá sig svona opinskátt um hin ýmsu mál. Ég er þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að æðsti ráðamaður þjóðarinnar tjái sig um heit mál í þjóðmálaumræðunni, þó auðvitað megi hann ekki fella sleggjudóma eða ganga of langt í skoðanamyndunum. Eitt er víst, að forsætisráðherra er aðeins að segja það sem honum finnst, hann er óhræddur að segja skoðun sína. Nýjasta dæmið er eignarhald Baugsfeðga á fjölmiðlum. Auðvitað finnst okkur það vera vafasamt að sami aðilinn eigi eða komi að þremur fjölmiðlum. Þess vegna er alveg sjálfsagt að lög um eignarhald á fjölmiðlun séu aftur skoðuð. Margir hugsa núna aftur í tímann þegar lög um eignarhald á fjölmiðlum voru til skoðunar. Þá var niðurstaðan sú að ekki var talin þörf á því að gera breytingar, en einmitt þá tengdist Morgunblaðið og Stöð 3. Þetta er spurning, ég viðurkenni það.

Hve langt má forsætisráðherra ganga? Er ekki sjálfsagt að hann tjái sig um hin ýmsu mál í þjóðfélaginu. Ég er alla vega þeirrar skoðunar að hann megi það, hvað með ykkur?

Ólafur Sv.