Í fréttablaðinu í dag (17. des) er merkileg grein eftir Ólaf Ólafsson fyrrverandi landlækni. Hann birtir þar samanburðartölur frá World Health Organisation yfir heilsufar og heilbrigðiskostnað á norðurlöndum og í OECD-löndunum. Þess ber að geta að öll löndin sem vitnað er til teljast til velmegunarþjóða. Þeim er skipt í þrjá hópa eftir því hve hátt hlutfall einkarekstrar í heilbrigðismálum er hjá viðkomandi þjóð, og birtar tölur um ævilíkur, barnadauða og heildarkostnað við heilbrigðisrekstur.
Til að gera langa sögu stutta er heilbrigðiskostnaður og barnadauði mestur hjá þeim þjóðum sem mest eru einkavæddar í heilbrigðismálum. Ísland, sem er í mest ríkisvædda hópnum (A), myndi til að mynda þurfa að punga út 10 milljörðum meira á hverju ári til heilbrigðismála ef við gæfum okkur að við færðum okkur úr meðaltali hóps A yfir í meðaltal hóps C, sem er sá mest einkavæddi. Fyrir þessa 10 milljarða myndum við svo hafa keypt okkur hærri barnadauða sem nemur um það bil 7 dauðsföllum barna undir 5 ára aldri á ári.
Það væri ráð að hugleiða þetta eins og landlæknirinn leggur til, áður en hrópað er á einkavæðingu. Þeir sem það gera eru auðvitað að hugsa um að græða sjálfir. Klisjur eins og að einkarekstur sé ávallt hagkvæmari en opinber duga ekki til, enda rangar.