Nafn og myndbirtingar sakamanna

Mikið hefur verið um rætt í fjölmiðlum þessa lands hvort það eigi að birta nöfn manna sem sekir eru um afbrot.
Hverskyns afbrot? Auðgunar og kynferðisbrot aðallega.
Það síðarnefnda hefur alltaf haft mikið í för með sér. Mikla rannsóknavinnu og ég tala nú ekki um ef brotið snýr að ólögráða, börnum.
Hversu alvarlegt sem brotið er, hversu þekktur sem einstaklingurinn er þá virðist það ekki skipta neinu máli fyrir fjölmiðla þessa lands. Flestir hafa nú samt sín viðmið en það er einn miðill hér í bæ sem virðist ekki hafa neitt betra fram að færa en nafnbirtingar og það sem meira er myndbirtingar af nánast öllum ógæfumönnum okkar Íslendinga síðan þetta blað var endurreist.
Blaðið sem um er rætt er Dagblaðið Vísir. Sem mér þótti einu sinni virðulegt og gott blað, sérstaklega fyrir okkur yngra fólkið þar sem að Morgunblaðið er of þungt í lestri. Ég vann við að bera þetta blað út frá því í fjórða bekk og fannst afar mikið til þess koma. Blaðið var tekið til gjaldþrotaskipta eins og kunnugt er og nú, þegar það var endurreist kemur ný ritstjórn inn í það. Ekkert slæmt um það að segja nema það að viðmið ritstjórnarinnar virðast ekki vera nein önnur en að upplýsa allt um fortíð og nútíð manna sem er ekki, já ekki búið að dæma.
Segir ekki lagastúfurinn: ,,Enginn er sekur uns sekt er sönnuð” ? Jú.
Mikið hefur verið rætt um hvort nafnbirting sé dómur. Að mínu mati er hún það. En hvað þá myndbirting? Það er miklu alvarlegra að birta mynd af manni í fjölmiðli heldur en að birta nafnið hans að mínu mati. Nafn hans þekkja sumir, en andlitið allir.
Hversu réttmætt þetta er að mati DV þá finnst mér það ekki réttmætt að fólk skuli leggjast svo lágt að þurfa að vera með eitthvað svona til þess að selja blaðið.
Hvað myndi Illugi Jökulsson ritstjóri DV segja ef að hann yrði handtekinn fyrir grun um nauðgun og Morgunblaðið myndi birta mynd af honum, áður en sekt hans yrði sönnuð?
Ég efa það stórlega að hann myndi hafa þessu því um líku réttlætiskennd sem hann hafði í Ísland í dag nú í vikunni þegar rökræður milli hans, Róbert Marshalls formanns Blaðamannafélagsins og þáttastjórnanda áttu sér stað. Er Illugi virkilega svona illur eins og nafnið gefur til kynna?
Að mínu mati já! Í þessu máli í það minnsta.
Dv er ekkert annað en lélegt blað sem flokkar sig undir rannsóknarblaðamennsku, ekki almennilega heldur óvandaða, ósanngjarna og leiðinlega rannsóknarblaðamennsku.

Þessi grein er mitt álit og þarf ekki að endurspegla þitt álit og það sem meira er þá er það sem kemur fram ekki staðreynd heldur mitt álit.
Ykkar álit takk og enginn skítköst.

Guðmundur Þ.