Ég veit að margir hafa búið til nýja grein undanfarið á STEF gjaldamálinu. En grein mín er meira um hvernig fólk hér á landi er að nota þennan búnað án þess að þetta komi STEF við.

Nú lifum við í tækniveröld sem býður upp á mjög fjölbreytta möguleika aðra en að hlusta á ólöglega tónlist.

Því ætla ég að taka nokkur dæmi fyrir sem fólk er að gera sem koma STEF gjöldum ekki við.

Fólk sem á stafrænar myndavélar hefur verið að kvarta yfir því að þeir þurfi að borga fyrir minniskortin STEF gjöld þar sem það er hægt að nota þau til að hlusta á tónlist (eins og þau séu ekki nógu dýr fyrir).

Fyrirtæki ásamt mörgum einstaklingum hafa verið að taka afrit af gögnum sínum á geisladiska til að spara rými eða flytja á milli staða, og þurfa því að borga STEF gjöld fyrir brennara ásamt öllum þeim geisladiskum sem þeir kaupa.

Fólk sem kaupir sér tölvu þarf að borga STEF gjöld fyrir tölvuna hvort sem það yrði undir persónulegar upplýsingar, fyrir vinnuna eða jafnvel skólann. Einnig hefur fólk verið að fá sér tölvu til að geta haft aðgang að netinu, sem býður upp á margfalt fleiri möguleika en að ná sér í ólöglega tónlist.

Margir ungir tónlistarmenn hafa verið að ganga sín fyrstu skref hér á Íslandi, og hefur verið tilvalið að dreifa nokkrum eintökum af geisladiskum til að kynna sig. En samt þarf þetta fólk að borga STEF gjöld fyrir sína tónlist, kvort sem hún er fyrir þá eða aðra.

Nú eru mjög mörg tónlistarforrit í gangi sem gera fólki kleift að búa til tónlist á einfaldan hátt, og eru margar síður á netinu sem fólk getur deilt tónlist sinni með almenningi. En þetta kostar plássrými og geisladiska.

Einnig er mjög mikið af fólki sem vill fá sér videotæki eða geislaspilara fyrir heimilið, og þarf þá að borga STEF gjöld fyrir, jafnvel þótt það spili ekki nema keypta diska og horfi einungis á leigðar myndir.

Myndavélar hafa orðið mjög vinsælar með árunum, en einnig þarf að borga STEF gjöld fyrir hverja spólu þó að það hafi ekki verið nema myndir af fermingarbörnum og ferðalögum. (þó að þau lög hafi nú verið lengur til staðar)


Ég sjálfur nota mjög mikið af geisladiskum í Open-Source hugbúnaði, sem má brenna að vild á löglegan hátt. Ég er ekki með netið heima ennþá þannig að ég nota geisladiska til að flytja gögnin mín á milli staða, sem samsvarar hátt í 10 diskum á mánuði. Eftir að ég er búinn að nota einn disk get ég ekki notað hann aftur og þarf því að kaupa mér fleiri. (Ég nota ekki endurskrifanlega diska þar sem þeir eru með lélegri speglun og endast illa)

Ef það eru einhverjir fleiri hlutir sem eru ekki hér að ofanverðu, sendið það þá endilega inn.

Mér finnst sjálfsagt að það séu smá STEF gjöld á sumum vörum, en mér finnst þetta of mikið.

En ég segi það samt, ég ætla ekki að borga dópið ofan í Bubba hvert einasta skipti sem ég notfæri mér tækniframfarir.

Freysteinn