Ég er ánægður með að vera vinstrisinnaður. Ástæðan fyrir því að ég er sáttur maður og set fram þessa fullyrðingu er ekki út af því að ég sé óhlinntur einkavæðingu og ég sjái miðstýrt hagkerfi í hyllingum, neinei, fyrir því er önnur ástæða. Einhver ykkar hafa væntanlega fylgst með fréttaskýringaþættinum Spegillinn í gegnum tíðina. Þetta er afskaplega vandaður þáttur sem bíður uppá fjölbreytileg og krítísk sjónarhorn á innanríkis jafnt sem heimsmál. Þátturinn hefur uppá síðkastið legið undir ásökunum nýverið frá útvarpsstjóra, Markúsi Erni Antonssyni og dóms-og kirkjumálaráðherra Birni Bjarnassyni um að vera áróðursþáttur sem leitar til vinstri. Þessu hafna ég út frá eftirfarandi forsemdum.
Við lifum á tíma sem einkennist af modernískum hugsunahætti. Modernismi á rætur til upplýsingaldarinnar, en sú öld gat meðal annars af sér tvær pólitískar stefnur, þar að segja nútíma kapítalisma og kommúnisma. Báðar leggja þessar stefnur uppá mikilvægi vísindalegs hugsunarháttar og eru í raun og veru ekkert ósvipaðar þegar djúpt er í gáð þó svo að birtingarformið hafi skipt þessum stefnum uppí andstæður á tímum kaldastríðsins. Segja má að nútíma kapítalismi hafi unnið þá lotu en sigurvegarar eiga það til að ofmetnast á sigurstundu og svo fór. Það sem þessi sigur gat af sér var nýfrjálhyggja sem fól í sér aukið frelsi á sviðum athafnalífsins en minna frelsi til fólksins. Fólk á það til að trúa því að þar sem við lifum undir verndarvæng sigurvegaranna sé það vísindaleg staðreynd að við þá eigi ekki að deila og hversskyns gagnrýni sé einfaldlega vinstrivilla. Ég leyfi mér í framhaldinu að spyrja, hversskonar samfélag er það sem hefur ekkert við gagnrýni að gera? Lifum við í einhversskonar útópíu? Ég vil hér koma á framfæri risasstóru hrósi til þáttastjórnenda Spegilsins, því aðeins með gagnrýnu hugarfari eigum við eftir að færast nær samfélagi sem er fært um að taka á því heiftarlega misrétti sem á sér stað, bæði innan landamæra Íslands og utan þeirra.