Breska tónlistartímaritið Q fær kredit fyrir ansi viðamikla dópumfjöllun í síðasta tölublaði sínu. Þetta er með metnaðarfyllri greinarbálkum sem ég hef séð í tónlistartímariti og sannar að Q er ennþá í fararbroddi (hef þó oft orðið fyrir miklum vonbrigðum). Þeir kaflaskiptu umfjölluninni eftir eiturlyfjategundum sbr. sér heróínkafli, sér kókaínkafli os.frv og fjölluðu um hve hugsanleg áhrif viðkomandi dóps gæti haft á sköpunargáfuna. Rætt var við ýmsa músíkanta og valdar voru 5 bestu plöturnar sem samdar voru undir áhrifum ákveðinna eiturlyfja. Á þeim lista voru svosem hlutir sem maður hefði getað sagt sér. T.a.m. var Exile on Main Street eftir Stones valin besta heróínplata allra tíma (enda sýna “glæsilegar” ljósmyndir af Keith Richards, teknar frá upptökuferli þeirrar plötu, allt sem sýna þarf. Screamadelica eftir Primal Scream var valin ein besta sýruplatan, Rumours með Fleetwood Mac ein besta kókaínplatan og Bob Marley átti NOKKRAR bestu kannabisplötur allra tíma (rosalega kemur það á óvart!)

Niðurstaða umfjöllunarinnar afhjúpaði tabúið mikla að vissu leyti. Menn voru sammála um að heróín og kannabis-efni hefðu haft mest skapandi áhrif á tónlistarsöguna, en auðvitað tekið ófyrirgefanlegan og HRIKALEGAN toll fyrir. Kókaín er talið alvont fyrir sköpunargáfu músíkanta. Það örvar allt annað en sköpunargáfuna, heftir hana og brenglar. Fjöldi rokkara sem rætt var við, sögðu að margt af því versta sem þeir höfðu samið, væri kókaíni að kenna. Áfengi (sem er auðvitað eiturlyf) höfðu menn misjafnar skoðanir á m.t.t. sköpunargáfu. Meistari Tom Waits og Shane McGowan úr Pogues eru auðvitað annálaðar fyllibyttur, en Bakkus gamli hefur átt drjúgan þátt í að skemma margann snillinginn eins og t.d. Brian Wilson.

Persónulega er ég algjörlega á móti lögleiðingu fíkniefna, ef þið hafið haldið að hér væri dulbúin áróðursgrein fyrir eiturlyfjanotkun. Ónei. Það að sjá rauð- eða stórglampeygða æsku landsins spígspora annarlega á milli hinna ofsaþreyttu house- og teknóklúbba Reykjavíkur, finnst mér sorglegt. En HEIÐARLEG umfjöllun um dópneyslu og skaðsemi hennar verður að fara fram og Q hefur sett sitt lóð á vogarskálarnar með þessari tilkomumiklu “pros and cons”-grein sinni.

P.S. Það vakti athygli mína að Older-platan hans George Michael frá 1996, var valin ein af 5 bestu kannabisplötum allra tíma, en Goggi hefur oft á undanförnum árum lýst því yfir að hann hafi samið mörg af sínum bestu lögum í gegnum tíðina, í mikilli hassvímu. Í ljósi þeirrar staðreyndar er það frekar kaldhæðnislegt að einhver allraharðasti George Michael-aðdáandi á Íslandi, heitir Þorgrímur Þráinsson og er framkvæmdastjóri Tóbaksvarnaráðs og anti-reykingamaður nr. 1!!! Það finnst mér mjög fyndið.