Þessi grein er skrifuð í anda máltækisins “Don't float through life - make waves.”

Það er allt að verða vitlaust. Út af þessum skatti. Menn fara hamförum hér á huga og víðast hvar annars staðar. Ég tel hins vegar að menn séu of reiðir til þess að geta horft á málin á eðlilegum forsendum. Málið er kannski ekki eins fáránlegt og ætla mætti. Hér eru nokkrar staðreyndir og hugleiðingar mínar um þær:

Sú tækni að endurframleiða geilsadiska með tónlist, án þess að gæði tapist, er fyrir hendi. Óháð því hvort að sú tækni er notuð eða ekki er nauðsynlegt að koma til móts við þá kröfu tónlistarmanna að þeir fái greitt fyrir verk sín.

Hverjum og einum einstaklingi er frjálst að búa til öryggisafrit af þeim diskum sem hann á, svo og að búa til eintök til þess að hafa í bílnum sínum o.s.frv. En um leið og hann afhendir vini sínum eintak, hvort sem það er gegn greiðlsu eða ekki er hann að brjóta höfundarréttarlög. Eða öllu heldur sá sem tekur við disknum. Óháð því hvor er sekur hefur höfundarverki listamannsins verið dreift ólöglega. Þetta er gert á Íslandi eins og annarsstaðar en kannski ekki í svo miklu mæli að það skaði íslenskt tónlistarlíf eins mikið og Magnús Kjartansson vill halda fram. Ég er sammála því að skatturinn er of hár, en hann verður að vera til staðar á meðan einhverjir stunda þá iðju að brenna diska fyrir vini sína, ekki síst með tilliti til þess að brennaraeign fer vaxandi í landinu. STEF þekkir kannski ekki nógu vel það hlutfall og því er sjálfsagt að mótmæla skatthlutfallinu, ekki skattinum sem slíkum. Hann á rétt á sér.

Annað mál. Hugbúnaður er höfundarverk og hugbúnaður er afritaður á ólöglegan hátt í stórum stíl á Íslandi. Um það þarf ekki að deila. Teljið þið sem hér farið hvað mestum hamförum í gagnrýni á skattinn eðlilegra að 70% skattsins renni til þeirra sem framleiða hugbúnað. Yrði þá Microsoft ekki ofarlega á blaði þar? Er skatthlutfallið þess vegna kannski ekki sanngjarnt en skipting þess ósanngjörn?

Ég leyfi mér hér með að efast stórkostlega um að allur sá fjöldi fólkssem skrifað hefur undir mótmælaskjalið noti þá tómu diska sem það kaupir og þau tæki sem það notar til þess eins að búa til lögleg öryggisafrit af gögnum sínum. Ég tel að þjófnaður á stafrænum gögnum sé stundaður í stórum stíl og að það eigi fyrst og fremst við um hugbúnað en að tónlistin eigi sinn sess þar líka. Ég tel að skattur til verndar rétti höfunda á sköpunarverkum sínum eigi rétt á sér. Ég tel hins vegar að skatthlutfallið sé of hátt og að skipting þeirra gjalda sem innheimtast sé vanhugsuð af hálfu stjórnvalda.