Nú þegar að yfir 10.000 manns hafa skráð sig á mótmælalistann gegn hækkun á geisladiskum og fjallað hefur verið um mótmælin í nær öllum fjölmiðlum hef ég tekið eftir einum hóp sem er undarlega hljóður. Stjórnmálamenn.

Það vantar ekki faguryrðin þegar það á að ræða um framtíð upplýsingatækninnar á alþingi og á mannamótum. Greinin lofsömuð í bak og fyrir og þeir lofa eins og þeir geta upp í ermina á sér um að styrkja hana og bæta. En núna, þegar að vegið er að greininni í heild sinni þá þegja þeir. Hvers vegna?

Hvar er hin öfluga stjórnarandstaða sem gat barið sér á brjóst þegar að tiltölulega fámennur hópur öryrkja mótmælti dómi hæstaréttar? Hvar eru þeir stjórnmálamenn sem grípa hvert tækifæri sem gefst til að tala illa um ríkisstjórnina sem Menntamálaráðherra er hluti af?

Og kannski mikilvægast af öllu…hvar er Björn Bjarnason?

Ég minni fólk á, stjórnmálamenn og aðra, að mæta í Menntamálaráðuneytið kl. 15 á föstudaginn næstkomandi til að afhenda undirskriftarlistann þeim sem þorir að taka við honum.
JReykdal