Það vill svo skemmtilega til að ég er trúleysingi, þó ég hafi eitt sinn verið mjög heittrúaður. Ég hef, þrátt fyrir þetta, alls ekki misst áhuga á trúmálum, þvert á móti.

Það er víst við hæfi að gera allt geðveikt fyrst, og hjala síðan, þannig að ég ætla að byrja á því að fullyrða að bókstafstrú er undantekningalaust (ekki undantekningalítið, heldur undantekningaLAUST), annaðhvort markviss heilaþvottur samkvæmt skilgreiningu, eða hrein og klár heimska og fáfræði. Stríð hafa drepið skrilljónir og fólk gerir hræðilegustu hluti í nafni trúar sinnar. Ofsatrú finnst mér eðlilegri, að hafa mjög sterka trú er eitt, en bókstafstrú, þar sem trúað er á bókstaf einhvers ákveðins rits, er að mínu mati hreinlega greindarskortur ef ekki eingöngu sjúkleg sjálfsblekking, sem er þó til í fleiru en trú, og flokkast reyndar frekar undir geðkvilla en greindarskort, ef út í það er farið.

En þrátt fyrir þessa skoðun mína, þá pirrar mig það alltaf jafn mikið, þegar fólk hreytir því út úr sér blákalt, að trúarbrögð séu ástæða alls ills í heiminum. Að heimurinn væri betur kominn án trúarbragða. Þetta er nefnilega viðmið sem er alfarið og eingöngu sprottið af fordómum og fáfræði, rétt eins og bókstafstrúin sjálf.

Talið við mann í AA, spyrjið hann um guð. Meðalmaður í AA getur ekki sagt ykkur neitt um það hver guð sé eða hvað hann nákvæmlega gerir eða hvað, hann getur bara sagt að þarna er sá gamli og hann er með í spilinu. Ég þekki persónulega ógrynni fólks sem vottar fyrir það að hið æðra afl hafi bjargað því.

Ég þekki líka fólk sem hefur loksins náð stjórn á sjálfu sér með því að trúa á guð. Ég hef horft á gjörsamlega nautheimskt fólk seilast inn í ofsatrúarkirkjurnar, og virkilega þroskast! Jafnvel þó að ég sé algerlega á móti bókstafstrú, þá eru til fjölmörg dæmi um þetta.

En það skiptir svosem ekki öllu. Ég er ekkert dómbærari en annar á hlutfall frelsaðra sem gera óskunda eða gera gott. Hér er aðalpunktur minn.

Við skrifum ekki góðverkin í söguna. Við skrifum það hvergi niður þegar trúin bjargar einhverjum, enda yfirleitt mjög persónuleg upplifun sem fólk gæti líklega ekki einu sinni útskýrt, jafnvel þó það hefði snefils áhuga á því. Við höfum endalausar bækur um stríð og volæði og vitleysu sem fylgir trúarbrögðum, en hvergi er ritað niður hið fjölmarga sem trú gerir gott. Það sem þið finnið, eru slæmu tilfellin… jafnvel þar sem þið finnið eitthvað þar sem trúin gerir gott, er það iðulega skrifað niður vegna þess hversu ROSALEGA MIKIÐ, þessi trú bjargaði einhverjum. Það eru tilfellin sem fólki finnst þess virði að krota niður á blað og geyma. Þau eru svo mörg, SVO mörg, en þau eru bara hvert um sig svo lítilvæg.

Því, jafnvel þrátt fyrir að vera harður andófsmaður hálfvitaskaps og vitleysu á borð við bókstafstrúar, þá er ég jafn mikill andófsmaður þess hálfvitaskaps og vitleysu, að fordæma alla trú, byggða algerlega og eingöngu á grófri tilfinningu sem virðist fyrst og fremst eiga rætur sínar að rekja til kvikmynda eða “almannaálits”… einhverrar tilfinningar sem á sér hvergi raunverulega forsendur í raunveruleikanum. Niðurstöður byggðar á endalausum “hlýtur-að-vera” röksemdum. M.ö.o.: Rökvilla.

Bókstafstrúarfólk, afsakið dóma mína, en þetta er mín einlæga, hlutlausa skoðun eftir að hafa verið á meðal ykkur sjálfur, án þess að trúin hafi svikið mig neitt. Þvert á móti hefur trúin margoft reddað mér í lífinu, og sakna ég þess stundum að geta ekki firrt mig lengur. Ég berst gegn hálfvitaskap, hvoru megin línu trúarinnar svosem hann er.

Og núna ætti allt að verða BRJÁLAÐ! ;)