Undanfarna daga og vikur er ég mikið búin að vera að velta mér uppúr alls konar fordómum tengdum samkynhneigð… þá bæði fordómum fólks gagnvart því sem er öðruvísi en það á að venjast og líka fordómum samkynhneigðra gagnvart því sem þeir eru vanir…

Þetta byrjaði eiginlega þegar ég fór á djammið daginn sem gay pride var… Ég var búin að vera á djamminu með kærastanum og við fengum far heim með bróður hans en bróðir hans er einmitt hommi. Þegar við komum inní bílinn sat þar gamall bekkjafélagi minn úr grunnskóla sem ég hafði ekki séð lengi og ég spjallaði smá við hann, ég held hann hafi ekki verið mjög fullur (ef hann var þá nokkuð búinn að drekka) þannig að það er ekkert sem afsakar stælana sem hann var með. Við keyrðum niður part af laugaveginum og á einum staðnum var einhver gaur sem stóð á miðjum veginum… “keyrðu á hann…” sagðir strákurinn og ég hefði ekkert orðið hissa nema vegna þess sem kom næst… “helvítis gagnkynhneigða pakk… Útrýmum öllum gagnkynhneigðum!” ég hristi bara hausinn og hélt hann væri bara eitthvað að fíblast en hann hélt áfram og fór að tala um það að ég og kærastinn værum í minnihlutahópi í bílnum (það voru 3 aðrir hommar þarna) og gerði viljandi lítið úr okkur vegna kynhneigðar okkar, já eða þeirrar kynhneigðar sem hann gerði ráð fyrir að við værum.
Ég hitti hann ekki löngu seinna þegar ég var að labba niður laugaveginn og var búin að vera að versla geisladiska… hann fékk að kíkja í pokann og gretti sig þegar hann sá diskana (pearl jam og system of a down) “oj, straight tónlist dauðans!” ég glotti bara og spurði hvað hann héldi sig vita um kynhneigð mína… hann tók mig samt ekki alvarlega og hélt áfram að ýja að því að hann væri á hærra plani en við…

Já, ekki halda að ég telji að allir hommar séu eins og hann. Ég veit auðvitað betur. Það fór samt í taugarnar á mér að hinir strákarnir skildu ekki segja neitt því ef einhver hefði verið að gera grín að hans kynhneigð þá hefði ég orðið ótrúlega reið og þar sem ég hélt að næstum allir samkynhneigðir væru frekar þreyttir á fordómunum sem þeir þurfa oft að þola þá bjóst ég ekki við að fá mikla fordóma á mig úr þeirra átt…

Svo er það tvíkynhneigð… Það er ótrúlega algengt að fólk haldi að þeir sem eru tvíkynhneigðir séu bara til í að sofa hjá öllum og séu einhverskonar kynlífssjúklingar… og ef þið eruð núna að hugsa að ég sé stórlega að ýkja þetta þá vill ég taka það fram að ég er tvíkynhneigð og ég verð oft vör við þetta… kannski bara vegna þess að það fer í taugarnar á mér. Sumir sem eru samkynhneigðir halda líka stundum að þeir sem eru tvíkynhneigðir séu bara ráðvilltir og í afneitun og eigi bara eftir að koma útúr skápnum sem samkynhneigðir en vilji ekki viðurkenna það fyrir sjálfum sér. Frekar grunn viðhorf en sem betur fer eru ekki allir sem hugsa svona.

Um daginn var ég svo að velta einu fyrir mér. Þegar við sjáum samkynhneigt par kyssast útá götu er það ekki mjög vinsælt ef maður missir útúr sér einhverjar þreytulegar athugasemdir… Ég skil vel að það sé ekki vel liðið þegar fólk er með fordóma en stundum er málið einfaldlega það að maður nennir ekki að horfa á fólk yfir höfuð vera að kyssast eins og það eigi lífið að leysa. Nú er ég ekki að tala um einhverja smá kossa og haldast í hendur heldur er ég að tala um það að fólk sé virkilega komið í forleik fyrir framan allt og alla. Ég veit líka vel að samkynhneigðir þurfa oft að þola pískur og augngotur þegar þeir/þær leiðast eða kyssast en það sem ég er að tala um er þegar venjulegt fólk, með gjörsamlega enga fordóma þorir ekki að setja útá það vegna þess að þá er það stimplað fordómafullt.
Þegar ég sit í skólanum og sé par á næsta borði kyssast á fullu, sitjandi í fanginu á hvort öðru og ég veit ekki hvað og hvað, þá hika ég ekki við það að tjá mig um það. Ég tjái mig jafnvel viljandi nógu hátt til þess að parið heyri það að ég nenni ekkert að horfa á það (sem er nú frekar mikil frekja en það segir samt enginn neitt). Fólk í kringum mann tekur alveg undir þetta og ranghvolfir augunum og talar um það hvort þetta sé nú nauðsynlegt, hvort parið geti ekki hamið sig í smá stund og það er frekar augljóst að allir eru pínu þreyttir á þessu blessaða pari án þess þó að það sé eitthvað illa meint gegn þeim eða séu fordómar.
Ef sama par væri hins vegar tveir strákar eða tvær stelpur hvað gerist þá? Enginn segir neitt… (miðað við það að um fordómalaust fólk sé að ræða) maður leiðir það bara hjá sér og tekur því eins og þroskuð mannesja og hættir að láta það fara í taugarnar á sér. Af hverju? Vegna þess að annars er maður fordómafullur! Eða hvað?
Ekki misskilja mig og halda að ég þoli ekki að horfa á homma/lessur kyssast útá götu (sko, ég er strax farin að hafa það á tilfinningunni að ég þurfi að afsaka mig). Ég var bara að velta fyrir mér þeirri pælingu hvort við séum stundum að breyta annars eðlilegri hegðun okkar til þess að forðast að vera kölluð fordómafull… hommahatarar eða eitthvað í þá áttina. Haldið þið að það sama myndi gerast ef um fólk af öðrum kynþætti væri að ræða… Myndum við sleppa því að segja það sem við værum að hugsa vegna þess að þá værum við orðin kynþáttahatarar?
Eru hlutirnir virkilega orðnir þannig að við erum hætt að þora að setja útá fólk sem er í “minnihlutahópum”? En ef fólk setur eitthvað útá þá sem ekki skera sig úr þá er það allt í lagi vegna þess að þá er ekki verið að móðga neinn… eða hvað?
Þú ert ekki orðin drukkin ef þú getur legið á gólfinu án þess að halda þér í ;)