Í dag (30.okt. 2003)er hægt að lesa frétt á mbl.is sem segir frá því að maður sem sem misnotaði bæði dóttur sína og stjúpdóttur sína kynferðislega. Stjúpdótturina misnotaði hann frá því hún var 8 ára þar til hún varð 12 ára en dóttur sína misnotar hann í hálft ár eða þegar hún var á þrettánda aldursári.
Maðurinn fær 15 mánuði í fangelsi. Í dómnum segir að hann hafi sér engar málsbætur.
Eftir að hafa lesið þetta þá fór ég að velta fyrir að nú er þetta sem sagt maður sem brýtur ítrekað af sér, við erum að tala um á fimmta ár. Segjum sem svo að ég hefði ítrekað brotist inn í hús í fimm ár og það hefði komist upp um öll innbrotin. Þá samkvæmt íslenskum hegningarlögum er ítrekun brota til refsihækkunar.
Í hegningarlögunum stendur að maður sem brýtur af sér kynferðislega gegnvart börnum sínum, stjúpbörnum o.s.frv. er refsimarkið 6 ár en ef barnið er yngra en 16 ára þá allt að 10 ár.
Nú geri ég mér einnig grein fyrir því að á Íslandi er í hávegum höfð dómvenja, en er dómvenja á íslandi svona lág, sérstaklega þar sem kemur fram í dómnum að ekkert sé honum til málsbóta?
Á Íslandi er einmitt líka sú regla að borgarinn hefur rétt á því að hvert mál skuli vera tekið fyrir sérstaklega og skoðað sérstaklega, svo mín spurning er í rauninni hversu hrottalegt þarf brotið að vera svo refsiramminn sé nýttur?
Ein rökin fyrir því að refsiramminn sé ekki nýttur til fulls eða meira í kynferðisbrotamálum eru þau að kynferðisbrotamenn brjóti svo oft aftur af sér, og því geri svona háar refsingar ekkert gagn.
En er ekki orðin spurning hvert sé markmiðið með refsingunum í svona málum, gæti ekki verið skynsamlegra að vernda samfélagið gegn svona veikum mönnum þangað til þeir eru hæfir til að koma aftur út í samfélagið, og þá meina ég ekki fyrr.
Jafnvel fangarnir á Íslandi segjast ekki finna fyrir betrunarkerfinu sem á að vera við lýði í íslenskum fangelsismálum. Þarf þá ekki að vera eitthvað öðruvísi kerfi fyrir kynferðisafbrotamenn en það sem er í dag?
Allir sem þekkja til einhvers sem hefur þurft að leita sér einhvers konar meðferðar, vita að 15 mánuðir gera ósköp lítið í flestum tilvikum þar sem vandamálið er alvarlegt, er þá ekki rétt að skikka þessa menn í lokaða meðferð innan lokaðrar stofnunnar fyrir kynferðisafbrotamenn í eitthvað lengri tíma en gert er í dag?
Er ekki kominn tími til að eitthvað sé gert í sbambandi við glæpamenn sem hafa framið kynferðisafbrot því ég fæ það einhvern vegin á tilfinninguna að það að setja þá inn á Litla-Hraun muni ekki hjálpa þeim mikið.
Að lokum hvernig á það að vera einhverjum til bóta að maðurinn sem hefur verið dæmdur í þetta “stuttan” tíma fyrir svona afbrot sé kominn út aftur löngu áður en barnið og fjölskylda þess hafi haft nokkurn tíma til að jafna sig á því sem hefur gerst, því hjá þeim kemur upp hræðsla og ótti um að maðurinn komi aftur og brjóti aftur á einstaklingnum eða eistaklingunum sem hann hafði brotið á áður.
Ég er ekki að segja að ég vilji henda þessum mönnum inn í klefa og henda lyklinum, heldur að það verði að hjálpa þessum mönnum að gera sér grein fyrir því hvað þeir hafi gert og hjálpa þeim til að verða nýtir og gegnir þjóðfélagsþegnar og það hljóti að vera til betri leið en við erum að nýta í dag.

Endilega ef þið hafið einhverjar skoðanir á þessu máli látið í ykkur heyra.