Jæja börnin góð, ég held ég sé búinn að finna lausnina á þessu litla höfundarréttar/download-vandamáli sem skekur margmiðlunarheiminn. Eins og alþjóð veit artar það sig þannig að verið er að dreifa hugverkum í heimildarleysi á netinu í stórum stíl, einna helst tónlist og kvikmyndum, og eigendur höfundarréttar fá ekkert fyrir sinn snúð. Reynt hefur verið að mæta þessu með gjaldi á geymslumiðla, og hefur það reynst óvinsælt og árangurslítið, enda kemur það niður á mörgum öðrum en þeim sem skyldi. Fyrir nokkrum mínútum sló því niður í mig að þetta megi leysa að einhverju leyti með því að leggja gjald á gagnamagn sem netnotendur sækja á netið, þ.e. krónur per MB. Slíkt gjald er þegar innheimt hjá mörgum vefmiðlurum til að mæta kostnaði. Það ætti að vera í lófa lagið að skylda alla sem veita internetaðgang að innheimta stefgjöld af gagnasókn notenda. En þá spyrjið þið, hvað með þá sem eru ekki að dánlóda, en eru bara að sörfa? Þeir lenda í því að borga fyrir þá gagnasókn sem það útheimtir? Rétt er það, en gagnamagnið hjá þeim er svo hverfandi lítið að þeir yrðu ekki einu sinni varir við það, samanborið við td. DVD mynd sem er fleiri gígabæt stykkið. Einu fórnalömbin sem ég sé í fljótu bragði eru klámhundarnir sem eru að sækja sér dónavídeó í stórum stíl. Þá væri líka sá möguleiki fyrir hendi að notandi gæfi miðlara upplýst samþykki fyrir því að sá síðarnefndi fylgdist með því sem sá fyrrnefndi sækti sér á netið - og innheimti einungis gjald af því sem væri hugsanlega verndað af höfundarrétti. Á sama hátt mætti undanskilja fyrirtæki sem gætu þurft að standa í miklum gagnaflutningum yfir netið.
Eins og ég segi var ég bara að fá þessa hugmynd rétt í þessu. Gjörið svo vel að rakka hana niður af hjartans lyst!