Tómleiki og illska hafa fylgt mannskepnunni svo lengi sem að hún fór að fá hugmyndir um það hvort hún væri í raun og veru til eða ekki. Flestir líta á þessa tvo eðlislægu þætti mannsins með hryllingi og reyna allt hvað af tekur að sporna við því að þeir nái á þeim tökum. Mannskepnan lifir lífi sínu oft í þeim tilgangi einum að sniðganga samviskubitið, þó flestir viti það innst inni að samviskubitið er gert eftir uppskrift og með því að búa til sína eigin má fá ásættanlega útkomu, hvort sem hún stangast á við stjórnarskránna eður ey. Þegar við, hins vegar, sameinumst í illskunni þá er yfirleitt ekki talið að um illsku sé að ræða, hvers vegna ekki? Jú það vantar í hana tómleikann. Sá sem fetar vegi illskunnar einn síns liðs, og ræktar þannig sína eigin blómlegu og gjöfulu samvisku, vekur upp samstöðu hjá hinum sem að deila með sér samvisku og illsku. Hópurinn á sér enga ósk heitari heldur en að gera hinn einstæða illvirkja að útlaga.

Sögur af útlögum eru einhverjar þær skemmtilegustu og mest spennandi þjóðsögur sem völ er á. Fjalla Eyvindur og hinn illræmda Halla kona hans og svo náttúrulega Gísli heitinn Súrsson ásamt Axlarbirni morðingja. Þessar sögur eru magnaðar að því leyti að þær sameina allt það sem einrænir illvirkjar þurfa að þola, tómleikann, rómantíkina og heimatilbúið hugmyndakerfi um samviskuna. Þessir útlagar vekja í dag væntumþykju og þjóðarstolt hjá okkur, nútímamanninum, vegna þess að við horfum rykugum augum á þessar myrku aldir og teljum okkur trú um, með heimatilbúinni samvisku, að þeir hafi haft ærnar ástæður til illvirkjanna, jafnvel þótt augljóst sé að einhver innri hvöt dró þá á glapstigu en ekki hefndin, þessi sæta.

Það sem ekki drepur þig gerir þig harðan, og það er jú svo sannarlega ákjósanlegt að vera eilítið harður í þessum heimi á meðan maður heldur sig utan sænsku stjórnarskrárinnar. Þegar maður horfir tómum augum á framtíðina og hugsanir einsog, enginn tilgangur, engin framtíð, ekkert ljós þjóta í gegnum hugann þá er ekkert annað um að velja í stöðunni, fyrir hinn myrkfælna mann, en að arka í mót myrkursins og sigrast á því stál í stál, myrkur í myrkur. Það er nauðsynlegt að sýna því sem er að sliga þig að þú sért öflugri hið innra, og í stað þess að beita svikum og sjónhverfingum þá kveikir þú ekki ljós í myrkrinu heldur hellir þú myrkri yfir myrkrið og murkar með því, smátt og smátt, lífið burt með samviskuna tóma líkt og andrúmsloft að vetranóttu á friðsælli heiði.

Ég er ekki að mæla með illskunni á neinn hátt en ég er hins vegar að verja heiður hennar því sá sem hana stundar í einrúmi gæti jafnvel orðið meistari í henni og komist þannig inn í sæluríki sitt og hjarta. Sá hinn illi þarf ekki vini, hann þarf ekki mat heldur þarf hann aðeins æfingu svo að hann geti stillt samvisku sína, fínstillt hana að vild þangað til stíll hans er orðinn svo óaðfinnanlegur að ekkert vantar uppá nema nememdur og fylgjendur.
Jónatan Livingstone Mávur var af flestum mávum talinn illur því hann hafði samvisku út af fyrir sig en með rykugum augunum þá þykir okkur öllum afar vænt um Jónatan Livingstone Máv sökum dirfsku hans og kjarks þegar hann tekur á móti myrkrinu og tómleikanum, hamingjusamtur með þanda vængi.