Nokkrar staðreyndir um dauðarefsingar í heiminum Árið 2002 áttu 389 staðfestar aftökur sér stað í 19 löndum, en Amnesty International skrásetti 1526 aftökur í 31 landi sama ár. Hvorug þessara talna eru þó réttar því aðeins sáralítill fjöldi aftakna í heiminum eru opinberlega staðfestar af viðkomandi yfirvöldum og einnig fara margar aftökur fram með leynd. Þróunin í aftökum sýnir hins vegar að fjöldi þeirra lækki ár frá ári og eru það svo sannarlega gleðifréttir. Ef að við styðjumst við tölur Amnesty International, sem að ég tel vera mun nær sannleikanum en tölur yfir staðfestar aftökur, þá fóru fram 2258 aftökur 1998 í 37 löndum, árið 1999 voru þær 1813 í 31 landi, árið 2000 voru þær 1457 í 28 löndum, árið 2001 voru þær 3048 í 31 landi og eins og áður sagði voru þær 1526 í 31 landi árið 2002. Af þessum tölum má sjá að aftökum fer fækkandi ár frá ári ef að frá er skilið árið 2001 en þá var aukningin óhugnalega mikil eða 52%. Ef að við lítum einnig á fjölda landa sem að aftökur fara fram í sjáum við að fækkun á sér stað þar einnig. Þetta má útskýra með því að þróunin í heiminum í dag er sú að æ fleiri ríki eru að taka dauðarefsingar úr lögum eða að fækka þeim glæpum sem að refsa má fyrir með dauða. Árið 2002 voru það tvö ríki sem að afnámu dauðarefsinguna með öllu en það voru Júgóslavía og Serbía og Svartfjallaland. Tyrkland steig einnig skref í átt að afnámi dauðarefsingarinnar með því að banna dauðarefsingar nema undir sérstækum kringumstæðum og hlífðu þannig lífi Abdullah Ocalan. Fiji steig einnig stórt skref í átt til afnáms þegar þeir afnámu dauðarefsinguna fyrir landráð og sjórán og þyrmdu þeir þannig lífi George Speight´s. Vitað er um tvo einstaklinga sem að voru undir lögaldri þegar þeir frömdu glæpi sína, þeir voru báðir 17 ára þegar glæpurinn átti sér stað. Þeir voru báðir teknir af lífi í Texas. Algengast er að fangar sem teknir eru af lífi séu skotnir af aftökusveit en 70 ríki notast við þá aðferð og þar af er það eina löglega aðferðin í 42 þeirra. Í Kína er einni kúlu skotið í hnakka fangans en í Tælandi er fanginn tekinn af lífi með vélbyssu. Flest önnur ríki sem að nota þessa aðferð notast við hefðbundna aftökusveit eins og gert er í Kína. Önnur algengasta aðferðin er henging en 10 lönd notast við þá aðferð. Í Íran viðgangast opinberar hengingar, en einnig er vitað að lík þriggja manna voru sýnd almenningi í Kúveit eftir aftöku þeirra á árinu 2002. Í Íran fara opinberar hengingar þannig fram að fanginn er hífður upp í loftið. Henging er lögleg aðferð við aftökur í 58 löndum og þar af er hún eina löglega aðferðin í 33 þeirra. Banvæn sprauta er notuð í 5 löndum; Bandaríkjunum, Kína, Guatemala, Taívan og Filipseyjum. Þar af er hún eina löglega aðferðin í Guatemala og Filipseyjum. Vitað er um 75 aftökur sem að fóru fram með þessum hætti í heiminum á árinu 2002 þar af fóru 70 þeirra fram í Bandaríkjunum en fimm í Kína (staðfestar aftökur þær voru án nokkurs efa mun fleiri). Aðeins eitt land í heiminum notast við gasklefa og rafmagnsstól en það er Bandaríki Norður Ameríku. Ein aftaka fór fram með rafmagnsstól á árinu 2002 en hún fór fram í Alabama. Í sex ríkjum í heiminum er það lögleg aftökuaðferð að grýta fólk til dauða, ekki er vitað um að slík aftaka hafi átt sér stað á árinu 2002 þótt það sé án efa mögulegt að slíkt hafi átt sér stað.
83 ríki notast við dauðarefsingu en 112 ríki í heiminum hafa afnumið dauðarefsinguna en þess má geta að Ísland afnam dauðarefsinguna árið 1928. 81% allra aftaka í heiminum árið 2002 voru framkvæmdar í Kína, Íran og Bandaríkjunum. Og að lokum þá voru 3248 manns dæmdir til dauða í 67 löndum árið 2002.