Sagt var frá því á vísi í gær að Séð og Heyrt birti frétt í tölublaði sínu þann dag sem ritstjóri hafi áður fengið staðfest að sé röng:

“Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður segist borinn röngum sökum í tímaritinu Séð og heyrt sem kemur út í dag. Segir þingmaðurinn í yfirlýsingu sem hann hefur sent frá sér að fullyrðinging þess efnis að hann hefði verið gripinn fyrir of hraðan akstur í Ölfusumdæmi án ökuréttinda 5. júlí sl. rangar. Í yfirlýsingunni frá Sigurður Kára segir: ”Vegna fréttar tímaritsins Séð og Heyrt sem kemur út í dag, miðvikudaginn 10. september 2003, sé ég mig knúinn til að taka eftirfarandi fram. Í frétt blaðsins er fullyrt að þann 5. júlí sl. hafi ég verið gripinn fyrir of hraðan akstur í Ölfusumdæmi án ökuréttinda. Hafi hið meinta umferðalagabrot mitt verið ljósmyndað og sýni ljósmyndin að í umræddu tilviki hafi ég verið ökumaður bifreiðarinnar. Þá er fullyrt að ég eigi yfir höfði mér háar fjársektir vegna hins meinta umferðalagabrots. Það skal skýrt tekið fram að frétt blaðsins og áðurnefnd fullyrðing Séð og Heyrt er röng og úr lausu lofti gripin, enda var ég ekki ökumaður bifreiðarinnar. Ég hef fengið staðfestingu á því frá Sýslumanninum á Selfossi, sem jafnframt hefur staðfest við mig og ritstjóra Séð og Heyrt að á umræddri ljósmynd komi skýrt fram að ég sé ekki ökumaður bifreiðarinnar og að frétt blaðsins sé því röng og eigi ekki við rök að styðjast. Ég sé þar borinn röngum sökum. Blaðamaður Séð og Heyrt sá ekki ástæðu til að bera frétt sína undir mig áður en hún var skrifuð. Eftir að ég fékk vitneskju um að blaðið hyggðist birta umrædda frétt, og í kjölfar þess að ég fékk upplýsingar um að Sýslumaðurinn á Selfossi hefði staðfest við ritstjóra blaðsins að fréttin væri efnislega röng, fór ég þess á leit við ritstjóra Séð og Heyrt og stjórnarformann útgáfufélagsins Fróða hf., sem gefur blaðið út, að fréttin yrði ekki birt. Urðu þeir ekki við ósk minni. Óskaði ég þá eftir því að blaðið lýsti því yfir að fréttin væri röng og bæði mig afsökunar á því að hafa haft mig fyrir rangri sök með þessum hætti. Þeirri ósk minni var einnig hafnað. Ég harma það að tímaritið Séð og Heyrt skuli viðhafa önnur eins vinnubrögð og ég hef hér líst. Ég harma það einnig að ritstjóri blaðsins skuli ekki hafa dregið birtingu fréttarinnar til baka eða beðið mig velvirðingar á fréttaflutningnum þrátt fyrir að hafa fengið staðfestingu frá sýslumanninum á Selfossi, æðsta yfirmanni lögreglunnar og handhafa ákæruvalds í umdæminu, um að fréttin væri röng. Að lokum beini ég því til þeirra frétta- og blaðamanna sem hyggjast fjalla um málið að fá staðfestingu á því sem að ofan greinir hjá Ólafi Helga Kjartanssyni, sýslumanni á Selfossi.“ ”

Ef þessi fréttatilkynning Sigurðar Kára er sannleikanum samkvæm, er þarna um að ræða níðingslegasta fréttaflutning Íslandssögunnar, að svo miklu leyti sem ég þekki til. Ég vil taka það fram að sjálfstæðisflokkurinn er síðasti flokkurinn sem ég myndi kjósa og að mér finnst Siggi Kári alls ekki fínn pólitískur pappír. Þó vona ég að hann höfði meiðyrðamál gegn blaðinu og hafi út úr því væna summu, með þeim fyrirvara að frásögn hans sé rétt.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Séð og Heyrt brýtur saurugt blað í íslenskri fréttamennsku. Ekki er langt síðan blaðið birti slúðursögu um meint framhjáhald og barnsgetnað þekkts knattspyrnumanns, nokkuð sem hérlendir fjölmiðlar hafa ekki fjallað um fram til þessa sem betur fer.

Það er mín skoðun að þetta blað sé blettur á íslensku samfélagi og ég hvet alla til að láta hjá líða að kaupa það eða lesa. Athugið að þeir sem lesa, td. á tannlæknastofum, búa til eftirspurn eftir blaðinu sem skilar sér í sölu þess.