Það er alveg sorglegt að fylgjast með Palestínu og Ísrael þessa dagana. Mér hefur sýnst að Íslendingar séu frekar með Palestínumönnum “í liði”, bara svona út frá þeim sem ég þekki.

Palestínumenn vilja landið sitt til baka. Ísraelsmenn vilja halda landinu sem þeir keyptu á sínum tíma, og því sem þeir hafa hertekið.

Palestínumenn vilja líka fá hryðjuverkamennina (afsakið, frelsishetjurnar) sína leysta úr haldi, en Ísraelsmenn vilja (eðlilega) refsa hryðjuverkamönnum.

Mjög reglulega koma einhver vopnahlé og samkomulög þangað til annar aðilinn tekur hrokakast og fer og tekur eitthvað sem honum finnst hann eiga.

Núna í seinasta vopnahléi voru það Ísraelsmenn, þegar þeir drápu hátt settan mann í einum af frelsissamtökum Palestínumanna. Og ég spyr, rétt eins og háttsettur Palestínumaður; hverjum andskotanum búast þeir við? Að Palestínsk hryðjuverkasamtök bara láti það eiga sig? Gleymi því í nafni vopnahlésins sem Bandaríkjamenn eru (miserably) að reyna að halda?

Ísraelsmenn vita vel að með því að gera svona lagað, koma Palestínumenn og drepa á móti. Og Palestínumenn vita vel að sögunni lýkur ekkert þar, Ísraelsmenn segja ekkert “úps, our bad, við skulum hætta núna”.

Það eina sem deiluaðilarnir virðast vera sammála um, er það að vera í áframhaldandi deilu. Hvort sem það er Ísraelsher (sem er engu minni hryðjuverkasamtök eða frelsisher heldur en hitt), Islamskt Jihad eða hvaðeina, þá skilja þeir vel hvernig þetta virkar, og þeim er alveg sama. Þeir vilja bara sitt.

Báðir aðilar í þessari deilu láta svona. Þeir vilja að hinn aðilinn hætti að skjóta, en þeir vilja báðir líka vinna, jafnvel þó þeir viti vel, að það er alger ómöguleiki. Annar þeirra verður að bakka, og báðir vilja að hinn geri það, helst þá upp á stolt eða trúverðugleika (menn verða jú að trúa því, að menn standi við hótanir sínar).

Ég legg til, að Íslendingar úthrópi báðar þessar þjóðir sem stríðsæsingamenn; algera jafningja í þessu heimskulega stríði þeirra. Við erum friðsöm þjóð og það hefur alltaf komið okkur vel, svo að við erum kannski dálítið hrokafull að þykjast skilja aðstæður þeirra eitthvað, en á móti kemur að við erum því mun betur sett til þess að líta á dæmið úr fjarlægð. Úr fjarlægð sést heimskan langbest, langt í burtu frá persónulegum missi hvers hermanns og hvers þegns.

Ísrael og Palestína vilja bæði vopnahlé, hetjur frelsaðar, tekið land endurheimt, en aldrei sést jafnvel bara annar aðilinn vinna að því. Ísrael hefur margt til síns máls, Palestína líka, og þau vilja viðhalda sínum málum, og vildu helst að þessi málefni mættu leysa í friði. En án þeirra, vilja þau engan frið. Og það er ámælisvert.

Íslendingar ættu að benda á báða í þessu tilfelli.