Undanfarið hefur umræða um forvarnir gegn reykingum verið á meira flugi en lengi áður. Þökk sé áberandi stærri viðvörunarskilaboðum utan á pakkningum ásamt yfirlýsingu frá Þorgrími Þráinssyni um að myndir af helstu afrekum þessa alræmda illgresis munu fylgja í kjölfarið hefur margur maðurinn undrast, reykjandi sem ekki. Að auki hafa heyrst háværar raddir sem krefjast þess að reykingar verði alfarið bannaðar á veitingastöðum landsins. Þetta síðasta langar mig aðeins að reyfa fyrir ykkur ágætu Hugurum.

Í tveim fjölmennustu ríkjum Bandaríkjanna, Kaliforníu og New York, hefur verið bannað um allnokkurt skeið að reykja innan veggja veitingastaða. Það sætir því nánast furðu að hér á Íslandi, einum allra harðasta andstæðingi tóbaksnotkunar, skuli það enn viðgangast. Þessu hefur verið eftir tekið í meiri mæli en oft áður. Beita fylgismenn bannsins þeim rökum að starfsfólk veitingastaða eigi að hafa rétt á því að vinna í umhverfi sem stóreykur ekki líkurnar á því að það bíði skaða af völdum óbeinna reykinga. Hver sem er ætti nú að gera sér grein fyrir hollustu þess að vinna við barborð í reykmekki. Dulin meðrök eru að sjálfsögðu einnig að þarna myndi vinnast mikill áfangasigur í baráttunni gegn tóbakinu.

Andstæðingar þessarar mögulegu lagasetningar eru að sjálfögðu margir, enda reykingafólk ekki fámennur minnihlutahópur. Þeir vilja vernda “rétt” sinn til að fá sér “eina slakandi” með matnum eða bjórnum eins og gefur að skilja. Að auki hafa heyrst þau mótrök (oftar en einu sinni) að þetta yrði allt frá því að vera slæmt til þess að verða jafnvel reiðarslag fyrir veitingahúsarekstur þar sem veitingahús myndu missa allt að helming viðskiptavina sinna. Slíkt er að sjálfsögðu alls ekki æskilegt.

Þar sem ég verð seint talinn besti vinur tóbaksins langar mig að taka aðeins á þessum mótrökum reykingingafólks. Fyrir það fyrsta finnst mér réttur vinnufólks til að geta unnið í heilsusamlegu umhverfi vega algerlega upp á móti rétti viðskiptavinanna til að kveikja sér í “einni slakandi”. Sumir gætu sagt að ef fólk vilji ekki vinna í reykumhverfi eigi það ekki að sækja um slíkt. Að mínu mati er sannleikurinn hinsvegar sá að margir hafa gengið í gegnum áralangt nám til að mega þjónusta aðra og eiga því skilið þá lágmarksvirðingu að fá að gera það í umhverfi sem smitar það ekki mögulega af krabbameini.

Þau rök reykingingamanna að þetta skaði veitingahúsarekstur standast heldur engan veginn. Fylgið mér nú: Ef reykingarmanni langar að fá sér “smók” með matnum eða eftir hann fer hann ekki á Subway því þar er bannað að reykja, hann fer því eitthvað annað. Ef það er enginn annar staður sem leyfir honum að reykja (eins og yrði í kannski í framtíðinni), myndi hann þá sleppa því að fá sér að borða vegna þess að hann getur ekki kveikt sér í? Hver sá sem heldur því fram er engan veginn í sambandi við umheiminn.

Því er greinilegt að veitingahúsareksturinn þarf alls ekkert að óttast algert bann við reykingum, hann ætti að taka honum fagnandi, rétt eins og kúnnarnir, því reykingafólk hættir ekkert að fara út að borða. Og hreina loftið sem það fær að kynnast eftir að öskubakkarnir hverfa verður síst til að gera það afhuga slíku. Við munum ekki sjá eftir þessu, ekkert okkar. Fögnum þessu og berjumst fyrir þessu

Virðingarfyllst:
Harry